Síðasta myndin af Pourquoi-Pas?

Pourquoi-Pas? á leið úr Reykjavíkurhöfn hinn 15. september 1936. Líklega …
Pourquoi-Pas? á leið úr Reykjavíkurhöfn hinn 15. september 1936. Líklega er þetta síðsata myndin sem tekin var af skipinu. Ljósmynd/Helgi Hafliðason

Þess verður minnst í dag og næstu daga að á morgun, 16. september, eru 80 ár liðin frá því að franska rannsóknaskipið Pourquoi-Pas? fórst í aftakaveðri í Straumfirði við Mýrar í Borgarfirði árið 1936. Með skipinu fórust 40 manns, þeirra á meðal dr. Jean-Baptiste Charcot, læknir og leiðangursstjóri. Einn skipverjanna, Eugène Gonidec, komst af með miklu harðfylgi og gat lýst því sem gerðist síðustu stundirnar í þessari örlagaför.

Jean-Baptiste Charcot stjórnaði tveimur vísindaleiðöngrum til suðurheimskautsins í upphafi síðustu aldar. Á millistríðsárunum stjórnaði hann fjölmörgum slíkum leiðöngrum á norðurslóðir og er hann nú talinn á meðal þeirra sem lögðu grunninn að heimskautarannsóknum nútímans.

Líklega síðasta myndin

Helgi Hafliðason, síðar fisksali í Fiskbúð Hafliða við Hverfisgötu, tók líklega síðustu myndina af Pourquoi-Pas? þegar skipið sigldi úr Reykjavíkurhöfn. Helgi var þá aðeins 14 ára gamall og áhugasamur um ljósmyndun. Hann tók myndina á litla myndavél af svölunum á Hverfisgötu 123 þar sem hann átti heima.

Í bókinni Jean-Baptiste Charcot eftir Serge Kahn, sem kom út í íslenskri þýðingu, er mynd af Pourquoi-Pas?, sem talin var vera síðasta myndin af skipinu. Hún var tekin 15. september 1936. Þar sést mikill reykur úr skorsteininum og engin segl uppi. Á mynd Helga sést að verið er að heisa upp segl á skipinu á ytri höfninni og skipið því komið vel út úr höfninni.

Í forgrunni má sjá glitta í Rauðará og veginn sem lá að bænum Rauðará sem Rauðarárstígur er kenndur við. Lengst til vinstri er tankur sem líklega tilheyrði Gasstöðinni sem stóð nálægt þar sem lögreglustöðin er nú.

Júlíus Helgason, sonur Helga Hafliðasonar, sagði að faðir hans hefði oft talað um að hann hefði tekið mynd af Pourquoi-Pas? þegar skipið fór í sína hinstu för. Hún var lengi týnd en kom nýlega í leitirnar. Júlíus var svo vinsamlegur að leyfa Morgunblaðinu að birta þessa sögulegu mynd í tilefni þess að 80 ár eru liðin frá sjóslysinu mikla.

80 ár frá sjóslysinu við Mýrar

Dr. Charcot fórst ásamt 39 skipsfélögum.
Dr. Charcot fórst ásamt 39 skipsfélögum.

Franska sendiráðið, Háskóli Íslands og Vináttufélag Charcots og Pourquoi-Pas? standa að ýmsum viðburðum dagana 15., 16. og 17. september til að minnast þess að á morgun, 16. september, eru liðin 80 ár frá því að franska rannsóknaskipið Pourquoi-Pas? fórst í aftakaveðri undan Mýrum í Borgarfirði 1936.

Dr. Jean-Baptiste Charcot og áhöfn hans komu oft hingað til lands og eignuðust þeir hér marga vini. Slysið snerti því marga Íslendinga afskaplega sterkt eins og fréttir af því bera með sér. Sjóslysið mikla á Mýrum hefur lifað í vitund þjóðarinnar allt fram á þennan dag.

Afkomendur Charcots ætla að fjölmenna hingað af þessu tilefni og taka þátt í minningardagskránni.

Dagskráin hefst í Straumfirði

Athöfn verður í dag kl. 10.00 í Straumfirði á Mýrum þar sem lík skipverja og brak úr Pourquoi-Pas? rak á land. Flutt verða stutt ávörp við minnisvarðann og lagðir blómsveigir að honum. Frú Vallin-Charcot, dótturdóttir Charcots leiðangursstjóra, segir nokkur orð og að því loknu verður 40 rósum varpað í hafið.

Eftir hádegið verður móttaka í minjasafni Borgarbyggðar þar sem er Charcot-sýning. Í kvöld verður ný heimildarmynd um Charcot forsýnd í húsakynnum Alliance française í Tryggvagötu 8 í Reykjavík kl. 20.00. Myndin er á frönsku og ekki textuð. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Í fyrramálið kl. 10.00 verður minningarmessa í Landakotskirkju og kl. 11.00 verður athöfn í Fossvogskirkjugarði þar sem eru grafir fáeinna skipverja af skipinu. Athöfn verður síðan í Charcot-safninu í Fræðasetrinu í Sandgerði kl. 15.30. Þar mun frú Vallin-Charcot afhenda muni sem tengjast Charcot og leiðöngrum hans.

Málþing um Jean-Baptiste Charcot verður síðan haldið í hátíðarsal Háskóla Íslands á laugardag kl. 14.00. Fjallað verður um heimskautarannsóknir hans og gildi þeirra í samtímanum. Málshefjendur eru Jean-Louis Étienne, heimsþekktur læknir, vísindamaður og heimskautakönnuður, Anne-Marie Vallin-Charcot, barnabarn Charcots leiðangursstjóra, Stéphane Dugast, blaðamaður og höfundur bókar um Charcot sem kemur út á næstunni, Friðrik Rafnsson, þýðandi og verkefnisstjóri og Jörundur Svavarsson, prófessor í sjávarlíffræði og einn hvatamanna að stofnun Charcot-setursins í Sandgerði. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert