Tvær keppa um stjórnarformannsstólinn

Óttarr Proppé.
Óttarr Proppé. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tvær konur hafa boðið sig fram til stjórnarformennsku Bjartrar framtíðar og hefur Óttarr Proppé gefið kost á sér til áframhaldandi formennsku. Ársfundur BF verður haldinn á morgun.

Á dagskrá fundarins eru hefðbundin aðalfundarstörf svo sem kjör formanns og stjórnarformanns. Tveir frambjóðendur hafa boðið sig fram í embætti stjórnarformanns, Björt Ólafsdóttir alþingismaður og Eva Einarsdóttir varaborgarfulltrúi.

Óttarr Proppé hefur einn boðið sig fram til að gegna embætti formanns næsta árið. Framboðum er þó hægt að skila inn fram að setningu fundarins.

Nokkrar ályktanir verða bornar upp á fundinum undir liðnum „önnur mál“. Ein þeirra gerir ráð fyrir verulegri fólksfjölgun þannig að Íslendingar verði orðnir 800.000 talsins árið 2050. Í annarri er fjallað um núgildandi búvörusamninga gamla Íslands, í andstöðu við heilbrigða samkeppni og mikilvæga sátt hagsmunaaðila, segir í fréttatilkynningu frá Bjartri framtíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert