Stenst ekki stjórnarskrána

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samanlagt framsal fullveldis til yfirþjóðlegra stofnana vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og Schengen-samstarfinu er komið út fyrir þau mörk sem stjórnarskráin heimilar.

Þetta segir Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra, í minnihlutaáliti í utanríkismálanefnd Alþingis vegna þingsályktunartillögu um að Ísland gangist undir evrópskt fjármálaeftirlit sem sinnt verði af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Síðari umræða um þingsályktun þess efnis fer fram á Alþingi síðar í dag.

Frétt mbl.is: Skiptar skoðanir um fullveldisframsal

„Kerfið, sem hér er lagt til með þremur nýjum fjármálaeftirlitsstofnunum auk kerfisáhættu­ráðs, er til þess fallið að auka stöðugleika á fjármálamörkuðum. Hin stjórnskipulegu álitaefni sem málið vekur eru hins vegar alvarleg. Þau ber einnig að skoða í samhengi við fyrri innleiðingar þar sem vald hefur verið framselt til yfirþjóðlegra stofnana,“ sagði Össur.

Styður ekki málið að óbreyttri stjórnarskrá

Vísaði hann meðal annars til laga um Flugöryggisstofnun Evrópu, inn­leiðingu gerða tengdum skráningarkerfi losunarheimilda og innleiðingu gerða um eftirlit með ríkisaðstoð fyrir utan Schengen-samstarfið. Þrjú mál lægju fyrir Alþingi að auki sem fælu í sér framsal á fullveldi varðandi raforkumál, skipaeftirlit og persónuvernd og gagnaöryggi.

„Færa má rök að því að hvert einstakt framanrakinna dæma rúmist innan heimilda 2. gr. stjórnarskrárinnar séu þau skoðuð afmörkuð hvert um sig,“ segir Össur. Þegar samanlögð áhrif þeirra væru hins vegar metin, til viðbótar við það framsal sem fælist í innleiðingu gerða vegna fjármálaeftirlitsins, væri ljóst að framsal fullveldis væri komið yfir þau mörk sem stjórnarskráin heimilaði.

Össur sagðist því ekki geta fallist á að þingmálið væri tækt til afgreiðslu að óbreyttri stjórnarskrá. „Málið, sem er til umfjöllunar, og fyrri dæmi um framsal ríkisvalds undirstrika því nauðsyn þess að hraðað verði samþykkt nýrrar stjórnarskrár þar sem skýr heimild er til framsals ríkisvalds til stofnana EES-samningsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert