Getur slegið í storm við fjöll

Rigning verður allvíða á landinu í dag og norðaustan átt 8-15 metrar á sekúndu. Öllu hvassara verður þó á norðvestanverðu landinu þar sem búast má við að vindur nái 13-20 metrum á sekúndu um hádegisbil. Að sögn vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands getur jafnvel slegið í storm við fjöll norðvestantil, m.a. við Breiðafjörðinn, á Vestfjörðum og Ströndum. Veðurstofan varar því fólk við að vera á ferðinni með tengivagna á þessum slóðum.

Það hefur rignt vel á Austfjörðum í nótt, en mesta úrkoman færist síðan yfir á Norðurlandið er líður á morguninn og má gera ráð fyrir  mestri rigning við ströndina og utarlega á Tröllaskaganum.

Hiti verður á bilinu 4-12 stig og verður hlýjast sunnan heiða.

Gert er ráð fyrir að það dragi úr vindi í kvöld og nótt. Áfram verðu þó norðaustanátt og er gert ráð fyrir að hún verði 8-15 metrar á sekúndu norðvestanlands, en  5-10 metrar á sekúndu víðast annar staðar. Þá má búast við  skúrum eða rigningu víða á landinu, en þó verður þurrt og rofar til suðvestanlands.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert