Konan er dæmd út frá útliti sínu

Auglýsing úr neðanjarðarlestarstöð í París.
Auglýsing úr neðanjarðarlestarstöð í París. Skjáskot/Illusionists

„Þetta er heimildarmynd um ómögulegar fegurðarhugmyndir sem eru ríkjandi um allan heim,“ segir ítalski kvikmyndaleikstjórinn Elena Rossini í samtali við mbl.is.

Kvikmynd hennar, The Illusionists, verður sýnd á ráðstefnu um áhrif markaðsafla á sjálfsmynd og hegðun: „Gallabuxurnar - er eitthvað að þeim en ekki þér?“ sem fer fram í Hörpu um helgina.

Á ráðstefnunni um helgina verður sérstaklega fjallað um útlitsdýrkun í auglýsingum og fjölmiðlum, megrunaræðið, sífellt meiri notkun skyndilausna, vöntun á jafnvægi og sátt, líkamsímynd barna og líkamsímynd kvenna. 

Nýleg rannsókn sýndi að 70% nema við Háskóla Íslands á í talsverðum erfiðleikum með líkamsímynd og hátt hlutfall þeirra sýna einkenni átröskunar, til að mynda höfðu 10% framkallað uppköst á síðustu þremur mánuðum fyrir rannsókn.

Rossini segir að myndin hafi verið átta ár í fæðingu. Hugmyndin kviknaði þegar hún las tilvitnum eftir bandaríska blaðamanninn og rithöfundinn Ambrose Bierce. „Þar segir að það skipti ekki máli hvernig maðurinn líti út. Konan er hins vegar dæmd út frá útliti sínu og það tengist sjálfsmynd hennar. Þegar myndin var hins vegar komin vel á veg komst ég að því að fegurðarbransinn sækir líka á karlmenn. Myndin fjallar því um alla, hvernig fegurðarbransinn sækir á alla.“

Elena Rossini.
Elena Rossini. Ljósmynd/Lawrence Oluyede

Ein gerð líkama falleg

Í stiklu úr myndinni sem má sjá neðst í fréttinni sjást konur í borgum í öllum heimshlutum fylgjast með sömu auglýsingunum. „Ein af skilaboðum myndarinnar eru þau að stórfyrirtækin auglýsa sömu hluti úti um allan heim. Þau segja eina tiltekna tegund líkama fallega og fólk um allan heim reynir að herma eftir þeim myndum,“ segir Rossini en í Asíulöndum eru ljóshærðar konur með blá augu notaðar til að auglýsa föt. „Fólkið á svæðinu lítur ekki þannig út. Þetta hefur neikvæð áhrif á sjálfsmynd kvenna; þegar hvert sem þær horfa þá geta þær ekki séð nógu góðar fyrirmyndir. Þær upplifa þá að eitthvað sé að þeim.“

Hið venjulega fólk sem reynir að herma eftir fyrirmyndunum er í raun að elta hið ómögulega. Engar myndir eru af venjulegu fólki og oft er búið að laga myndirnar, til að fyrirsæturnar líti sem best út. „Myndir af fyrirsætum eru fótósjoppaðar til að þær líti jafnvel enn betur út. Allt aukaskinn er fjarlægt og hrukkur eru fjarlægðar.“

Lágt sjálfsálit ungra karla

Síðustu ár hefur það færst í vöxt að karlar séu gerðir að skotmarki auglýsenda. Konur hafa alla tíð verið helsta skotmarkið en nú eru auglýsendur farnir í æ ríkari mæli að snúa sér að körlunum.

„Ég hef það á tilfinningunni að ungir karlmenn þjáist af lágu sjálfsáliti vegna fegurðarstaðla nútímans. Einnig getur þetta haft áhrif á unga karla sem eru umkringdir myndum af fullkomnum konum. Það getur síðan haft mikil áhrif á persónulegt líf þeirra,“ segir Rossini en hún talaði við unglingsstráka í Bandaríkjunum og Evrópu við gerð myndarinnar:

„Myndir sem þeir sjá, til að mynda klám, hefur mikil áhrif á þá. Það getur haft mikil áhrif á þá þegar þeir hefja samband vegna þess að þeir gera ráð fyrir því að stelpan í sambandinu sé fullkomin; eins og þeir hafa áður séð. Karlamegin snýst þetta því um þeirra eigin ímynd og einnig væntingar þeirra til kvenna.“

Stiklu úr myndinni má sjá hér að neðan:

The Illusionists [National Media Market Trailer] from Media Education Foundation on Vimeo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert