„Nú er botninum náð“

Þorlákshöfn.
Þorlákshöfn. Ljósmynd/Bergsteinn Einarsson

„Það er sárt að horfa á þróunina í sjávarútvegi og fiskvinnslu til skamms og lengri tíma litið.“ Þetta segir Gunnsteinn Ómarsson, bæjarstjóri í Ölfusi, en á fjórða tug starfsmanna fiskvinnslu Frostfisks í Þorlákshöfn hefur verið sagt upp. Segir hann að sveitarstjórnin hafi þegar hafið samtal við yfirvöld um þá stöðu sem komin er upp, en í sumar var kvóti seldur úr sveitarfélaginu frá Hafnanesi.

„Þetta er þungt, en hvað er til ráða?“ segir Gunnsteinn. Bætir hann við að sveitarfélagið geti í raun ekki gert neitt. „Við höfum ekkert í höndunum. Engin vopn til að bregðast við.“

Frétt mbl.is: Tugum sagt upp í Þorlákshöfn

Segir hann sveitarstjórnina hafa rætt við forsvarsmenn sjávarútvegsráðuneytisins og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins um stöðu mála. Engin niðurstaða sé komin úr þeim samtölum, „en það er vilji til þess að vinna hér að málum,“ segir hann. „Með samhentu átaki og vilja ríkisvaldsins væri hægt að gera eitthvað til að koma í veg fyrir þessa þróun.“

Stein­grím­ur Leifs­son, for­stjóri Frost­fisks, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að krónan og rekstarerfiðleikar fyrirtækisins væri skýring uppsagnanna.

Gunnsteinn segir að fyrir fyrirtæki eins og Frostfisk, sem kaupi allt sitt hráefni á markaði, þá skipti framboðið miklu máli. Segir hann að aukið framboð, hvort sem það væri með byggðakvóta eða öðru, myndi hafa í för með sér aukin störf og betra rekstrarumhverfi.

Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri í Ölfusi.
Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri í Ölfusi.

Ef horft er aftur um eitt ár í Þorlákshöfn þá var fyrirtækið Auðbjörg selt í heilu lagi til Skinneyjar-Þinganess. Samkvæmt Gunnsteini starfa þó enn jafnmargir þar og áður höfðu starfað hjá Auðbjörgu, en 40-50 manns unnu hjá Auðbjörgu. Fyrr í sumar voru svo aflaheimildir seldar frá Hafnanesi. Segir Gunnsteinn að engar uppsagnir hafi átt sér stað þar. „Vonandi verður sú þróun áfram með jákvæðum hætti, en það er samt óvissa sem á sér stað,“ segir hann.

„Nú er botninum náð, en maður veit samt ekki hver staða einstakra fyrirtækja er,“ segir Gunnsteinn og bætir við að vonandi nái Frostfiskur að bjarga sínum rekstri og ná vopnum sínum á ný. Segir hann óvissu í atvinnumálum vera stærsta málefni Þorlákshafnar. „Það er erfitt að eiga við svona mál,“ segir hann, „sem snertir atvinnu og lífsviðurværi fólks.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert