Diskókúluduftker og blettatígurskistur

Meðal líkbíla var þessi fallega rúgbrauðsbifreið.
Meðal líkbíla var þessi fallega rúgbrauðsbifreið. mynd/Frímann Andrésson

Útfararþjónusta er ekki öðruvísi en aðrar þjónustugreinar að því leyti að þar eru haldnar bransasýningar þar sem nýjungar eru sýndar og stefnur og straumar fyrir komandi misseri eru kynntir. Frímann Andrésson, útfararstjóri og eigandi hjá Útfararþjónustu Frímanns og Hálfdáns, var um helgina staddur á einni slíkri í Hollandi, en þetta er hans þriðja sýning.

Hann segir margt forvitnilegt að sjá á svona sýningum og að oftar en ekki megi sjá fyrir þróunina hér á landi með nokkrum fyrirvara á svona sýningum. Þótt hefðbundin þjónusta og vörur séu fyrirferðarmestar eru það þó öfgarnar sem fólk tekur mest eftir, eins og á fleiri viðlíka sýningum.

Stílhreint en vistvænt.
Stílhreint en vistvænt. mynd/Frímann Andrésson

Sýningin er haldin í Gorinchem í Hollandi, en það er lítill bær þar í landi og setja þeir 10 þúsund gestir sem sækja sýninguna heim ár hvert talsverðan svip þar á. Frímann segist fyrst hafa farið árið 2004 og svo aftur árið 2008, en sýningin fer fram fjórða hvert ár. Hann mætti svo aftur í ár eftir að hafa sleppt sýningunni fyrir fjórum árum.

Mun fleiri bálfarir í Evrópu en hér á landi

Ólíkt því sem er algengast hér á landi eru það bálfarir sem eru algengari en kistulagnir og því eru duftker mun stærri partur af sýningunni en kistur að sögn Frímanns. Segir hann að hér á landi sé hlutfall bálfara um 45% á höfuðborgarsvæðinu og 25% þegar horft sé á allt landið. Í Hollandi og víða erlendis sé þessi tala aftur á móti um 90%.

Líkbílar geta verið í allskonar stærðum og gerðum.
Líkbílar geta verið í allskonar stærðum og gerðum. mynd/Frímann Andrésson

Spurður út áherslur á sýningunni í ár segir Frímann að úr miklu sé að moða. Í heild séu um 300 sýnendur og sýningin gríðarlega stór. Fyrst beri að nefna hefðbundna hlutann þar sem kistur, duftker, legsteinar og annað sem tengist útförum og greftrun sé í föstum skorðum, oft hvítt eða glansandi. Aftur á móti séu fjölmargar útfærslur og ólíkt eftir löndum hvað sé vinsælt. Þannig bendir hann á að í Evrópu sé algengast að líkbílar séu með mjög stóra glugga að aftan þannig að hægt sé að sjá kistuna vel að utan.  Þetta sé aftur á móti ekki þekkt hér á landi og minna í Bandaríkjunum.

Kistur og aðrar vörur úr vistvænum efnum voru að sögn …
Kistur og aðrar vörur úr vistvænum efnum voru að sögn Frímanns fyrirferðamiklar á sýningunni. mynd/Frímann Andrésson

Allt vistvænt að gera sig

Helsta stefnan í ár segir Frímann að hafi verið hlutir sem séu vistvænir. Bæði eigi það við um kistur og duftker, enda hafi mátt sjá vísanir í „af jörðu ertu kominn, að jörðu skaltu aftur verða“.  „Allt sem er vistvænt virðist vera að gera sig,“ segir Frímann. Þannig hafi efni í mörgum kistum til að mynda verið hör og viður, allskonar „mínimalísk“ efni sem tengjast náttúrunni og minna um plast og glans en áður.“

Airbrush spreyjun var að sögn Frímanns að finna í nokkrum …
Airbrush spreyjun var að sögn Frímanns að finna í nokkrum básum. mynd/Frímann Andrésson

Diskókúluduftker, airbrush og blettatígurskista

Frímann segir að svo sé hin hliðin á þessu þar sem menn hafi farið þá leið að spreyja með „airbrush“ á kisturnar, en eins og sjá má af myndum voru kistur spreyjaðar til að líta út eins og New York eða fjöruborð. Þá vakti mikla athygli duftker sem var eins og diskókúla, en sjálfur hefur Frímann getið sér gott orð sem plötusnúður á skemmtistöðum borgarinnar undanfarna áratugi. Kista sem hafði verið klædd í tauefni með blettatígursmynstri skar sig einnig nokkuð úr, enda eitthvað sem Íslendingar eru fæstir vanir að sjá.

Íslendingar eru að sögn Frímanns nokkuð íhaldssamir í vali á …
Íslendingar eru að sögn Frímanns nokkuð íhaldssamir í vali á kistum. Það gæti því orðið talsvert í að viðlíka kista verði notuð hér á landi. mynd/Frímann Andrésson

Frímann segir að viðbrögð sín hafi verið sterkust þegar hann fór fyrst á sýninguna fyrir 12 árum. Með hverri sýningu hafi viðbrögðin orðið minni, enda orðinn vanari að sjá hluti sem eru í óhefðbundnari kantinum. Þannig séu sýningarnar til að halda sér við í faginu og sjá aðeins fram í tímann miðað við það sem gerist á Íslandi, en hér hafi menn löngum haldið útförum og því sem tengist andláti fólks í fastari skorðum en gerist á meginlandi Evrópu.

Sjá má fleiri myndir frá sýningunni á Facebook-síðu Útfararþjónustu Frímanns og Hálfdáns.

Diskókúlan sem er um leið duftker.
Diskókúlan sem er um leið duftker. mynd/Frímann Andrésson
Einn líkbílanna var
Einn líkbílanna var "graffaður". mynd/Frímann Andrésson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert