Niðurstaðan var: „Just do it“

Þangað til árið 2013 var Facebook-bann á Landspítalanum.
Þangað til árið 2013 var Facebook-bann á Landspítalanum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Það eru ekki nema þrjú ár síðan Landspítalinn ákvað að taka sig á í upplýsingamálum út á við og rækta bæði samskipti við fjölmiðla og landsmenn alla á samfélagsmiðlum. Í heildina hefur það verkefni gengið mjög vel og jákvæð samskipti verið mun fleiri en neikvæð. Þá er upplýsingagjöf stofnana til almennings gegnum samfélagsmiðla mjög mikilvæg og hluti af verkefnum þeirra. Þetta segir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, en hún hélt erindi á morgunfundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ og Félags forstöðumanna ríkisstofnana um ríkisstofnanir og samfélagsmiðla.

Umfjöllunin að mestu neikvæð

Anna sagði Landspítalann njóta mikils trausts og vera stærstu stofnun landsins. Vegna þessa hafa margir skoðun á spítalanum og segir hún stóra ástæðu fyrir því vera hverju vænt fólki þyki um stofnunina. Þannig snerti rekstrarvandi hennar við mörgum og þeir tjái sig um málefni spítalans á neikvæðan hátt, en mikill meirihluti allrar umfjöllunar um Landspítalann er neikvæð.

En það koma líka upp mjög erfið mál að sögn Önnu sem í raun sé erfitt að tjá sig beint um. Vísaði hún þar til frétta um læknamistök sem hefðu komið upp nýlega. Sagði hún í slíkum tilvikum sé grunnurinn samt að „segja satt og segja það strax og þú getur.“ Í slíkum tilfellum sagði hún nauðsynlegt að hafa byggt upp samstarf við fjölmiðla í gegnum árin með þetta markmið að leiðarljósi svo fjölmiðlar trúi því þegar ekki sé hægt að tjá sig strax um eitthvað mál eða að það snerti trúnað við skjólstæðing.

Úr Facebook-banni í virka Facebook-síðu

Fyrir þremur árum þegar Landspítalinn ákvað að koma upp Facebook-síðu var það ekki eina breytingin sem var gerð á samfélagsmiðlamálum innanhúss. Fyrir þann tíma hafði ríkt Facebook-bann á spítalanum. Anna segir að miklar umræður hafi átt sér stað innanhúss, framkvæmdastjórnin hafi fundað marg oft og að lokum hafi verið ákveðið að fara þá leið að auka sýnileika og upplýsingagjöf spítalans.

Anna Sigríður Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans.
Anna Sigríður Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans.

Segir Anna að þegar ákveðið sé að stíga þetta skref sé þó mjög mikilvægt að forstjórinn standi þétt á bak við málið og þegar ákvörðun um að opna fyrir Facebook og setja af stað Facebook-síðu hafi það verið forstjórinn sem tók af skarið að lokum. Pósturinn var ekki flókinn sem Anna fékk: „Just do it“ og var undirritaður af Páli Matthíassyni, forstjóra spítalans.

„Við erum hér öll í þjónustu við almenning“

Að lokum sagði hún að allar ríkisstofnanir ættu að vera dugleg að veita upplýsingar á samfélagsmiðlum. „Við erum hér öll í þjónustu við almenning“ sagði hún við aðra fundargesti. Sagði hún að forstjórar sem teldu stofnun sína ekki eiga heima á samfélagsmiðlum og koma efni sínu á framfæri við almenning þyrftu að spyrja sig um hlutverk sitt. „Þá þurfið þið að skoða af hverju þið eruð í þjónustu við almenning,“ sagði Anna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert