Myrkrið verður varla svartara

„Myrkrið leggst fljótt yfir og verður varla svartara. Þegar skýjahulan hopar má sjá norðurljósin dansa þegar líður á nóttina. Það rýkur úr tjöldunum og stjörnubjartur himinninn verður eins og nálapúði í myrkrinu og ærandi þögnin tekur yfir. Spangól heyrist í fjarska þegar suðið í rafstöðinni þagnar. Til stendur að fara um morguninn og finna hjörðina og ná nokkrum hreindýrum og fara svo á veiðar út í skóginn. Ekki er langt síðan Alexander veiddi stóran björn.“

Við erum á ferð með Ragnari Axelssyni ljósmyndara á freðmýrum Síberíu en hermt er af ferðum hans í blaðauka um norðurslóðir sem fylgir Morgunblaðinu í dag, Blikur á lofti. Allur texti í blaðinu er bæði á íslensku og ensku. 

Og fjör færist í leikinn.

„Spor eftir kvikindi sem kallast jarfi (e. wolverine) eru í snjónum í skóginum. Það er öllum illa við það kvikindi sem er eins og stór minkur. Öll dýr og menn forðast jarfann því hann ræðst aftan að mönnum, bítur þá í hálsinn og drepur. Hann er algjörlega óttalaus og drepur stærstu skepnur eins og birni. Með látbragði lýsir Alexander því hvernig jarfinn ræðst aftan að bráð sinni, bítur í hálsinn og sleppir ekki. Þeir ætla nokkrir saman út í skóg á veiðar og þeir munu skjóta dýrið ef þeir finna það.“

Margvíslegt efni er í blaðaukanum og meðal viðmælenda er bandaríski loftslags- og jarðeðlisfræðingurinn Michael E. Mann en hann sér sérstakar hættur steðja að Íslandi vegna loftslagsbreytinga.

„Það er til að mynda kaldur straumur sem kemur niður með vesturströnd landsins og er að hluta til skýringin á því hvers vegna hafið er svo gjöfult hér um slóðir og fiskveiði með ágætum. Síðasti alvöruþorskstofninn í heiminum er undan ströndum Íslands. Bregðist hringrás sjávar myndi það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir nýtingu fiskistofna í Norður-Atlantshafi. Því kaldari sem sjórinn er þeim mun meiri koltvísýring drekkur hann í sig. Ég held meira að segja að á sömu slóðum sé sýrustigið jafnvel að lækka enn meira en að meðaltali á heimsvísu og öllum sjávardýrum er hætta búin af súrnun sjávar. Í þeim skilningi er vandi Íslands enn meiri en annarra ríkja,“ segir Mann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert