Gagnrýnir Höskuld og Arion banka

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að Arion banki þurfi að taka sig á varðandi áherslur í rekstri, en vísaði hann þar til þeirra frétta að bankinn hefði sagt upp 19 starfsmönnum á landsbyggðinni á sama tíma og boðaðar væru bónusgreiðslur til yfirmanna.

Undir dagskrárliðnum störf þingsins í dag ræddi Þorsteinn um þá stöðu sem er uppi í íslenska bankakerfinu. Sagði hann bankana taka hlutverk sitt mis alvarlega. Þannig væri einn þeirra í því að „gefa ríkiseignir“ hraðar en æskilegt væri og Arion banki gæti endað í eign ríkisins innan skamms.

Sagði hann að svo virtist vera sem að bankar hér á landi treystu sér ekki til að halda úti hraðbönkum víða um land og steininn hafi tekið úr þegar tilkynnt var um uppsagnir Arion banka á rúmlega 40 manns nýlega. Þar af hafi 19 þeirra verið á landsbyggðinni og sjö þeirra á Siglufirði. Samt hafi Arion lofað að halda þessum störfum þegar bankinn tók yfir rekstur sparisjóðsins á svæðinu.

Sagði Þorsteinn þennan sama banka boða bónusgreiðslur fyrir yfirmenn og væri stjórnað af manni sem hafi fengið flestar og hæstar stjórnvaldssektir hér á landi. Lauk hann ræðu sinni á því að segja að Arion þyrfti að taka sig á varðandi áherslur í rekstri sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert