Hópuppsögn hjá Arion banka

mbl.is/Eggert

Tugum starfsmanna Arion banka hefur verið sagt upp störfum en starfsmönnum var greint frá þessu í dag samkvæmt áreiðanlegum heimildum mbl.is, en þetta hefur jafnframt fengist staðfest í samtali við Harald Guðna Eiðsson, forstöðumann samskiptasviðs bankans.

Um hópuppsögn er að ræða sem ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar, en samtals eru þetta 46 starfsmenn. Yfir 800 manns starfa hjá Arion banka og er meirihluti starfsmanna, um það bil 70%, konur. Flestir þeirra sem misstu vinnuna í dag störfuðu á viðskiptabankasviði bankans, sem er stærsta svið bankans.

Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segir í samtali við mbl.is að þetta séu skelfilegar fréttir. „Þarna er verið að segja upp sex prósent af heildarfjöldanum í einu lagi.“

Hann bendir ennfremur á, að frá bankahruninu árið 2008 séu um 30% af starfsmönnum bankanna búnir að missa vinnuna. „Við reynum eins og við getum að aðstoða fólkið á alla lund sem okkur er kleift,“ segir Friðbert ennfremur, en hann á von á því að heyra í starfsfólkinu, sem fékk í dag uppsagnarbréf, á morgun. 

Þetta er fyrsta hópuppsögnin hjá Arion banka í fimm ár, en árið 2011 var 57 starfsmönnum bankans sagt upp. 

Uppfært kl. 15:56

46 tilkynnt um starfslok

Arion banki hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins og er hún svohljóðandi:

„Í dag var 46 starfsmönnum Arion banka tilkynnt um starfslok þeirra hjá bankanum. Í þessum hópi störfuðu 27 í höfuðstöðvum bankans en 19 á öðrum starfsstöðvum. Eftir breytingarnar starfa um 840 manns hjá Arion banka. Vinnumálastofnun hefur verið greint frá starfslokunum.

Ýmislegt í umhverfi bankans kallar á breytingar á starfseminni. Veigamest er sú staðreynd að fjármálaþjónusta tekur umtalsverðum breytingum um þessar mundir. Viðskiptavinir kjósa í mun ríkari mæli að nýta sér sjálfsafgreiðslulausnir eins og bankaapp, netbanka og hraðbanka í stað samsvarandi útibúaþjónustu. Notkun appsins og hraðbanka í útibúum bankans hefur margfaldast á undanförnum árum. Vegna þessa hefur spurn eftir afgreiðslu í útibúum bankans dregist saman um þriðjung á tveimur árum. Þessi þróun kallar á breytingar og eru samhliða gerðar skipulagsbreytingar í útibúum bankans, án þess þó að útibúum fækki.

Breytingarnar nú eru liður í víðtækari aðgerðum til hagræðingar í rekstri bankans. Þrátt fyrir umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir undanfarin ár og endurskipulagningu starfseminnar hefur fjöldi starfsmanna haldist nokkuð stöðugur vegna yfirtöku á öðrum fjármálafyrirtækjum og vegna aukinna umsvifa. Fækkun starfsfólks er þungbært skref að stíga en nauðsynlegt í ljósi breyttra áherslana í starfsemi bankans og ytri aðstæðna.“



 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK