Hárprúðasta íslenska ungbarnið?

Kolfinna Elizabet er líklega með hárprúðari ungbörnum á landinu. Kolfinna varð þriggja mánaða fyrir nokkrum dögum en hárið er meira en flestir jafnaldrar hennar geta státað af. Segja má að um fjölskyldueinkenni sé að ræða, því eldri bræður Kolfinnu, þeir Karl Friðrik og Kristófer Matthías, höfðu einnig töluvert hár á höfði allt frá fæðingu.

Fyrr í vikunni vakti myndskeið af breskum, hárprúðum dreng mikla athygli í heimspressunni. Sá stutti fæddist líkt og Kolfinna með mikinn makka.

Frétt mbl.is: Hárprúðasta ungbarnið?

Foreldrar Kolfinnu eru Hulda Kristín Jónsdóttir og Kristján Friðrik Karlsson og segja þau að koma Kolfinnu hafi verið afar óvænt. „Hún var ekki plönuð þessi unga dama en dásamleg gjöf. Við erum alveg í skýjunum,“ segir Hulda Kristín. Bræður Kolfinnu eru 16 og 19 ára og að sögn Huldu Kristínar er þeir líka alveg heillaðir: „Þeir bíða eftir því að knúsa hana þegar þeir koma heim.“

Það er þó ekki eingöngu nánasta fjölskylda sem ekki sér sólina fyrir Kolfinnu, því sú stutta hlýtur talsverða athygli frá flestum þeim sem hana hitta.

Allir í fjölskyldunni, að hundinum Spotta undanskildum, bera nafn sem byrjar á bókstafnum K og því var ljóst að nafn dömunnar myndi lúta sömu reglum. Nafnið Kolfinna varð niðurstaðan vegna dökka og mikla hársins en seinna nafnið Elizabet segir Hulda Kristín vera komið til af öðrum ástæðum. „Ég er alin upp í Bretlandi og Kolfinna er svo mikil drottning.“

Líkt og bræður hennar var Kolfinna tekin með keisaraskurði. „Þau voru svo stór börnin okkar, ég hef alltaf þurft að fara í keisara,“ segir Hulda Kristín. Kolfinna var þó sú fyrsta af systkinunum til að vera tekin með svokölluðum náttúrukeisara, sem Hulda Kristín segir hafa verið dásamlega upplifun. „Það er eins og að maður fái loksins að vera þátttakandi. Maður labbar inn á skurðstofu, allir bara að rabba og tónlist í gangi. Svo leggstu bara niður og færð að heyra hvað er í gangi í gegnum allt ferlið og færð svo barnið bara beint upp á bringu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert