Lengi langað aftur til Nepal

Vilborg Arna og Tomasz Þór á toppi Island Peak sem …
Vilborg Arna og Tomasz Þór á toppi Island Peak sem er 6.189 metrar á hæð. Hún segir að það hafi verið gott að reyna sig aftur í Himalaya-aðstæðum. Ljósmynd/Vilborg Arna

Pólfarinn og fjallagarpurinn Vilborg Arna Gissurardóttir hefur undanfarnar vikur dvalið í Nepal. Þetta er fyrsta heimsókn Vilborgar Örnu til Nepal frá því að hún varð að hætta við að klífa Everest þegar jarðskjálfti upp á 7,8 skók Nepal í apríl í fyrra, með þeim afleiðingum að hátt í 9.000 manns létust og fjöldi manns missti heimili sín. 

Vilborg Arna er ekki ein á ferð því kærastinn Tomasz Þór Veruson er með í för. „Mig hafði lengi langað til þess að koma til baka eftir hamfarirnar 2015 og sjá umhverfið, því það var erfitt að fara héðan á meðan allt var í rúst,“ sagði Vilbjorg Arna í netspjalli við mbl.is.

„Við Tommi, kærastinn minn, ákváðum því að fara saman til Nepal núna í haust og klífa Island Peak með vini mínum sjerpanum Dendi, sem ég þekki vel úr mínum fyrri leiðöngrum.“ Dendi starfar jafnan sem kokkur í grunnbúðum Everest, en vinnur auk þess að uppbyggingu eigin ferðaþjónustufyrirtækis ásamt fjölskyldu sinni.

Tomasz Þór er í sinni fyrstu heimsókn til Nepal og segir Vilborg Arna hann hafa verið alveg heillaðan af menningu og landslagi Himalayafjalla. „Þetta er klárlega ekki hans síðasta ferð.“

Fjallasýn Himalaya er óneitanlega stórfengleg og segir Vilborg Arna Tomasz, …
Fjallasýn Himalaya er óneitanlega stórfengleg og segir Vilborg Arna Tomasz, sem var í sinni fyrstu ferð, hafa heillast algjörlega. Ljósmynd/Vilborg Arna

„Tilfinningalegur rússíbani“

Þótt ekki hafi staðið til að klífa Everest að þessu sinni voru grunnbúðirnar heimsóttar og gengu þau Vilborg Arna og Tomasz Þór upp í grunnbúðir Everest áður en þau klifu Island Peak, tind í Khumbudalnum sem er 6.189 metrar á hæð og ekki ýkja langt frá Everest. Leiðin upp á Island Peak er vinsæl gönguleið, sem tekur 9 daga með hæðaraðlögun.

Eftir hæðaraðlögunina gengu þau síðan í einu „gói“ eins og Vilborg Arna orðar það, frá grunnbúðunum og upp á topp og nam hækkunin síðasta daginn rúmum 1.000 metrum.

Heimsóknin í grunnbúðirnar tók nokkuð á, enda á Vilborg Arna erfiðar minningar frá síðustu dvöl sinni þar. „Grunnbúðirnar voru tilfinningalegur rússíbani, ég fékk smá ryk í augað og annað þess háttar, en eftir á þá var afskaplega gott að  hafa komið þangað,“ segir Vilborg Arna og kveðst hafa verið í besta hugsanlega félagsskap með þeim Tomma og Dendi. „Dendi lenti sjálfur í flóðinu í grunnbúðunum þar sem hann slasaðist, ásamt því að missa ættingja.“

Namche bazar á markaðsdegi. Þá koma menn úr sveitunum og …
Namche bazar á markaðsdegi. Þá koma menn úr sveitunum og sækja vörur fyrir vikuna og eru vistirnar allar bornar heim á bakinu. Ljósmynd/Vilborg Arna

Skipuleggja ferð á Island Peak

Reglur fyrir þá sem vilja reyna að komast á topp Everest hafa verið hertar töluvert og kveðst Vilborg Arna ánægð með að meiri kröfur sé gerðar til klifrara nú en áður. Og þó ekki hafi staðið til að reyna við topinn að þessu sinni, þá togar hann óneitanlega. „Everest á stóran hluta í mér og mig langar auðvitað að klífa það einn góðan veðurdag,“ segir hún. „Það var alla vega frábært að klífa Island Peak og reyna sig aftur í Himalaya-aðstæðum.“

Ferðin nú var að hluta til undirbúningur fyrir ferð sem þau Tomasz Þór ætla að bjóða upp á á þessar slóðir á vormánuðum í samvinnu við Dendi og fjölskyldu hans.

„Sú ferð verður frábært tækifæri til að upplifa Khumbudalinn á einstakan hátt með heimamönnum,“ segir hún. „Við munum svo klífa Island Peak, sem er frábær tindur til að klífa og upplifa Himalaya-klifur, en á undan ferðinni verðum við með námskeið þar sem við kennum og undirbúum þátttakendur fyrir allt það sem þarf að kunna skil á fyrir svona ferð.“ Vilborg Arna bætir við að dagskráin muni rata inn á vefsíðu sína á www.vilborg.is á næstu dögum

Gott að koma til baka og sjá uppbygginguna

Vilborg Arna er ánægð með heimsóknina til Nepal nú. „Mér fannst mjög gott að koma til baka og sjá þá uppbyggingu sem er að eiga sér stað með eigin augum, því hugurinn reikar auðvitað mjög oft hingað,“ segir Vilborg Arna.

Hinn almenni ferðamaður verður óneitanlega var við að enn á sér stað uppbygging í kjölfar skjálftanna og er til að mynda enn þá unnið að viðgerðum við marga vinsæla ferðamannastaði. „Ónýt hús eru þó ekki jafnáberandi og þau voru fyrst á eftir skjálftana, en þau sjást þó auðvitað líka,“ segir hún.

Sjerpinn Dendi við skilti sem vísar leiðina að Island Peak, …
Sjerpinn Dendi við skilti sem vísar leiðina að Island Peak, sem er vinsæl gönguleið. Ljósmynd/Vilborg Arna

„Unnið hefur verið að uppbyggingu í Khumbudalnum og margir eru búnir að laga húsin sín, en aðrir eru enn þá að. Við eigum t.d. vinafjölskyldu hér sem við höldum miklu sambandi við og þau stefna að því að vera búin að gera upp sitt hús í Khumbudalnum rétt eftir áramótin.“

Fleiri bílar á götunum en áður

Eftir fjallaferðina heimsóttu þau Tomasz Þór barnaþorp SOS í Kavre, en þau taka bæði mikinn þátt í starfi SOS hér heima. 

Þegar viðtalið átti sér stað voru þau komin til höfuðborgarinnar Katmandu og segir Vilborg Arna töluverða uppbyggingu líka vera í gangi þar. „Það er gott að sjá hversu mikið hefur verið gert. Við erum þó nokkuð frá svæðunum sem urðu verst úti, en þar mun uppbygging eiga sér stað næstu misserin.“

Hún segist þá veita því sérstaka athygli að fleiri bílar, þá sérstaklega fleiri nýir bílar, séu á götum borgarinnar nú en áður. 

Bjartsýni er þó ríkjandi hjá þeim sem hún þekkir í Nepal þrátt fyrir þá erfiðleika sem fylgt hafa eyðileggingunni og manntjóninu sem varð í skjálfanum í fyrra. „Það er mikil jákvæðni hjá þeim sem við þekkjum til. Ég held sambandi við marga heimamenn úr mínum fyrri ferðum og menn hafa haldið áfram og eru bjartsýnir.“

Namche bazar, sem er höfuðstaður sjerpanna í Khumbudalnum.
Namche bazar, sem er höfuðstaður sjerpanna í Khumbudalnum. Ljósmynd/Vilborg Arna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert