Nýi strákurinn í hverfinu

Martin Eyjólfsson, sendiherra í Berlín með vinum sínum í Berlín.
Martin Eyjólfsson, sendiherra í Berlín með vinum sínum í Berlín.

Martin Eyjólfsson sendiherra Íslands í Berlín fékk skemmtilegan póst í póstkassann heima hjá sér nýverið en bréfið var frá átta ára gömlum Íslandsaðdáanda. Sá heitir Caspar og eru hann og Martin orðnir hinir mestu mátar en Martin tók nýverið við starfi sendiherra í Berlín. Hann er því nýi strákurinn í götunni.

Í bréfinu frá Caspar kemur fram að bekkurinn hans sé að vinna verkefni tengt Íslandi og spyr hvort Martin geti komið í heimsókn á þjóðarhátíð sem eigi að fara fram 8. október. Því miður komst Martin ekki á hátíðina en ákvað að hafa samband við Casper og heilsa upp á hann.

„Hann varð steinhissa og svakalega feiminn í fyrstu. Eftir að hafa „sýnt“ mér Edda, litla bróður sinn, komst Caspar í gírinn. Hann sýndi mér fótboltabók með límmyndum af landsliðsmönnunum okkar en nokkra vantaði enn í safnið,“ segir Martin. 

Að sögn Martins fengu krakkarnir í bekknum að velja sér land til þess að læra um og varð Ísland fyrir valinu. Hann segir að það sé mikil Íslandsvakning í gangi í Þýskalandi í kjölfar EM í knattspyrnu í Frakklandi og það sé sama hvar hann komi - allir þekki Ísland og landsliðið.

Caspar vinur Marteins Eyjólfssonar sendiherra í Berlín hefur mikinn áhuga …
Caspar vinur Marteins Eyjólfssonar sendiherra í Berlín hefur mikinn áhuga á Íslandi.

„Við reynum auðvitað að nýta okkur þetta í að auka tengsl Íslands við Þýskaland, bæði í viðskiptum og menningu því það skiptir miklu að nota þennan meðbyr sem við höfum í þágu íslenskrar menningar og atvinnulífs,“ segir Martin í samtali við mbl.is.

Fljótlega kom í ljós að Caspar vissi margt og mikið um landið okkar og þegar Martin fór að tala um eldfjöllin og Kötlu, sem hafði verið í fréttunum dagana á undan vegna hækkaðs viðbúnaðarstigs, kom í ljós að hann vissi heilmargt um Kötlu.

EM í knattspyrnu hefur haft gríðarleg áhrif á þekkingu fólks …
EM í knattspyrnu hefur haft gríðarleg áhrif á þekkingu fólks á Íslandi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Mér leið svona næstum því eins og Eyjapeyja sem hittir Íslending sem hefur komið uppá Heimaklett eða þannig. Stoltið var slíkt,“ segir Martin en þess má geta að Martin er einmitt frá Vestmannaeyjum og lék knattspyrnu lengi vel með ÍBV og gekk undir viðurnefninu „Bjargvætturinn“ eftir frækilegt afrek á knattspyrnuvellinum.

Martin Eyjólfsson, sendiherra í Berlín heimsótti bekkinn hans Caspars.
Martin Eyjólfsson, sendiherra í Berlín heimsótti bekkinn hans Caspars.

Frásögn úr sunnudagsblaði Morgunblaðsins frá 28. september 1997:

Malli bjargvættur

Mörgum er í fersku minni þegar ÍBV bjargaði sér á ævintýralegan hátt frá falli 1992 og 1993 en bæði árin tryggði Martin Eyjólfsson liðinu áframhaldandi veru í 1. deild með mörkum í síðasta leik. Fyrra árið gerði varamaðurinn bæði mörkin undir lokin í 2:1 sigri á KA en seinna árið endurtók hann afrekið með marki á 89. mínútu í botnslag við Fylki. „Malli var bjargvætturinn tvö ár í röð," sagði Jóhannes (Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV),“ í samtali við Morgunblaðið.

Bréfið sem Martin Eyjólfsson fékk sent.
Bréfið sem Martin Eyjólfsson fékk sent.

Þrátt fyrir að hafa ekki getað komið á þjóðarhátíðina mætt Martin viku seinna í heimsókn í bekkinn hansCaspars.

„Þegar ég kom í skólann beið mín þar stoltur ungur maður sem tók á mér í anddyrinu ásamt fylgdarliði. Ekki voru móttökurnar af verri endanum í bekknum hans Caspars litla en skólastofan var öll skrýdd teikningum og myndum tengdum Ísalandinu okkar fallega og stóru Íslandskorti.“ 

Bréfið sem Caspar sendi Martini Eyjólfssyni.
Bréfið sem Caspar sendi Martini Eyjólfssyni.

Ímyndunarafli 8 ára barna eru engin takmörk sett og því fékk Martin svo sannarlega að kynnast. „Hversu hátt gjósa íslensku hverirnir? En eldfjöllin ... og af hverju eru þau yfirhöfuð á Íslandi og hversu mörg eru þau? Hvað með allar þessar kindur og hversu margar eru þær? En hestarnir? Er Katla vont fjall eða gott og eiga álfar heima í henni?", voru meðal spurninganna sem ég fékk. Tjah ... hver segir að fundur í utanríkismálanefnd sé erfiður?, segir Martin.

Eftir þessa skemmtilegu samverustund var hann leystur út með blómum og viðurkenningarskjali. „Caspar tók ekki í mál að ég kveddi hann inni í bekknum með öllum hinum heldur fylgdi mér út úr skólanum og alla leið út í bíl,“ segir Martin sem dáist af þekkingu bekkjarins á Íslandi og öllu íslensku.

Sendiherra Íslands í Berlín.
Sendiherra Íslands í Berlín.

Áhugi Caspars virðist ekki einskorðast við álfa, eldfjöll og kindur heldur dró hann móður sína, systur og litla bróður með á opnun MENGI (Berlin) sýningarinnar hjá sendiráði Íslands nýverið. Þar var hann mættur til þess að njóta íslenskrar myndlistar og tónlistar Skúla Sverrissonar og Óskars Guðjónssonar.

Bréfið sem Martin Eyjólfsson fékk sent.
Bréfið sem Martin Eyjólfsson fékk sent.

Martin segist hafa heimsótt þennan nýja uppáhaldsvin sinn í Berlín í gær og fært honum og systur hans plakat af landsliðinu, lítinn fána og nælu með KSÍ-merkinu. 

„Ég verð að játa að þetta litla ævintýri hefur minnt mig pínulítið á þegar maður heimsótti nýja vini á Brimhólabrautinni í gamla daga. Í þetta skiptið er það bara ég sem er nýi strákurinn í hverfinu,“ segir Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands í Berlín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert