Kvennafrí snýst um jafnrétti í raun

Frá fyrsta kvennafrídeginum, 24. október 1975.
Frá fyrsta kvennafrídeginum, 24. október 1975. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

41 ár verður á morgun liðið frá fyrsta kvennafrídeginum. Þennan dag árið 1975 felldu fjöl­marg­ar kon­ur niður störf í heil­an dag til að varpa ljósi á ójafna stöðu sína sam­anborið við karla. Meginhugmyndin snerist um að sýna samfélagslegt mikilvægi þeirra starfa sem konur unnu og var helsta birtingarmynd þess að vinnustaðir og heimili voru meira og minna óvirk þegar konur lögðu niður störf þennan dag.

„1975 var kvennaár“

Launamunur kynjanna hefur ávallt verið í aðalhlutverki á þessum degi en önnur málefni, sem gjarnan tengjast málefni líðandi stundar, hafa einnig hlotið töluverðan sess á kvennafrídeginum, að mati Erlu Huldu Halldórsdóttur, lektors í kvenna- og kynjasögu við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. „Þessir atburðir árið 1975 finnst mér sem sagnfræðingi gríðarlega merkilegir í kvennasögulegu tilliti. 1975 var kvennaár og konur voru búnar að fá nóg af því að vera með jafnrétti fyrir lögum en ekki jafnrétti í raun. Jafnrétti í raun var helsta krafa nýju kvennahreyfingarinnar sem fór að láta til sin taka á sjöunda og svo einkum áttunda áratugnum.“ 

Erla Hulda Halldórsdóttir, lektor í sagnfræði.
Erla Hulda Halldórsdóttir, lektor í sagnfræði. Ljósmynd/aðsend

Launa- og ofbeldismál verið áberandi

Frá upphafi hafa launamál einkennt kvennafrídaginn. „Stóra málið er raunverulegt jafnrétti kynjanna, við erum í raun áfram að berjast fyrir því. Launamálin er sígilt baráttumál og hefur verið frá því upp úr 1870 þegar fyrst var farið að tala opinberlega um þann mun sem var á launum kvenna og karla fyrir sömu vinnu, þá fyrst og fremst í tengslum við uppskipun í Reykjavík þar sem konur báru sömu byrðar og karlar fyrir lægri laun. Launamunurinn er alltaf á dagskrá en síðan eru það ofbeldismálin, kynbundið ofbeldi, sem hafa verið mjög áberandi í tengslum við kvennafrídaginn.“

Minnst með stórum baráttufundum

Kvennafrídagurinn er að mati Erlu Huldu sérstakur viðburður á ári hverju. „Í rauninni eru þetta ólíkir viðburðir ár eftir ár því kvennafrídagurinn árið 1975 verður aldrei endurtekinn. Við höfum þó kannski reynt, á einhvern hátt, að endurtaka þennan dag þegar hans hefur verið minnst með stórum baráttufundum eins og til dæmis 1985 og 2005. Það er út af fyrir sig frábært en auðvitað er hætta á að slíkir fundir verði eftirlíking á einstökum atburði.“

Frá kvennafrídeginum 2010.
Frá kvennafrídeginum 2010. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Séríslensk kvennasamstaða

Erla Hulda hefur skoðað kvennafrídaginn í sögulegu ljósi og segir það áhugavert að skoða hvernig áherslur hafa breyst eftir tíðarandanum og hvað er efst á baugi í jafnréttismálum hverju sinni. Sú þróun sé nauðsynleg eigi dagurinn að lifa sem baráttudagur en ekki bara minningardagar um atburð sem átti sér stað. „Ofbeldi gegn konum var til dæmis ekki baráttumál 1975, þá var ekki búið að opna inn á þá umræðu. Ofbeldismál hafa hins vegar verið meira eða minna á dagskrá það sem af er þessari öld enda fólk eðlilega mjög heitt yfir ofbeldi í víðum skilningi en ekki síst kynferðisbrotum. Í mínum rannsóknum hef ég skoðað gögn frá fyrsta kvennadeginum og það er merkilegt að skoða þessa samstöðu sem var um þennan dag, og í því felst kannski mikilvægi dagsins, að það er ákveðin samstaða sem virðist fylgja deginum áfram.“

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað að árið 1975 skyldi sérstaklega helgað málefnum kvenna og vakti framtak íslenskra kvenna athygli erlendra blaða- og fréttamanna og víða birtust myndir af útifundum og viðtöl við íslenskar konur í erlendum fjölmiðlum. Aðgerð af þessu tagi hafði verið undirbúin í öðrum löndum, til dæmis í Bandaríkjunum, og ef gögn frá Kvennasögusafni Íslands eru skoðuð má sjá að sú íslenska þótti bera af.

Voru tilbúnar að standa saman 

Erla Hulda hefur rýnt í fyrsta kvennafrídaginn ásamt Ragnheiði Kristjánsdóttur sagnfræðingi í tengslum við rannsóknarverkefni þeirra um sögu kvenna á 20. öld. „Við höfum verið að velta fyrir okkur leiðum sem konur höfðu til áhrifa og valda, hvaða tækifæri þær höfðu til að iðka vald og hvernig þær beittu sér í gegnum ýmis félög kvenna og í gegnum Kvenréttindafélagið, það er án þess að vera í hinu formlega stjórnmálastarfi, eða að minnsta kosti ekki í efstu sætum framboðslista eða á Alþingi. Konur voru tilbúnar að standa saman um ákveðin grundvallaratriði, þvert á stjórnmálaflokka. Ég held að í því felist mikilvægi þessa dags. Okkar tilgáta er sú að það hafi átt stóran þátt í því hversu vel heppnaður kvennafrídagurinn var að þarna komu saman öflug netverk kvenna í gegnum kvenfélögin, þær voru vanar að vinna saman og koma boðum út.“

Kvennafrí hvetur til skipulagningar frekari jafnréttisviðburða

Erla Hulda bendir jafnframt á að Kvennafrídagurinn hafi veitt tilefni og jafnvel innblástur til kvenna til að standa fyrir fleiri viðburðum sem við komi málefninu. Druslugangan sem er nú orðin að árlegum viðburði sé gott dæmi um það.  „Kvennafrídagurinn gefur færi á að halda smærri viðburði um sértæk eða almennari málefni og fræðimenn geta líka nýtt sér daginn til að vekja athygli á nýjum rannsóknum á sviði kynjafræða. Það er full þörf á að halda sögu þessa dags á lofti og því sem hann stendur fyrir. Hann er ágætt tilefni til að minna okkur á að þetta gengur ótrúlega hægt.“  

Druslugangan er orðin að árlegum viðburði.
Druslugangan er orðin að árlegum viðburði. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Að mati Erlu Huldu er mikilvægt að halda kvennafrídaginn ár hvert, þótt áhersla á málefni þróist í takt við tíðarandann. „Það er út af fyrir sig alveg ótrúlegt að 41 ári síðar erum við enn að berjast við þau viðhorf að launamunur skýranlegur með því að við konur veljum að vera á lægri launum vegna heimilis og fjölskyldu og fáum umbun í móðurhlutverkinu.“

Daglegum vinnuskyldum kvenna lokið klukkan 14.38

Á mánudag eru konur hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14.38 og fylkja liði á samstöðufund á Austurvelli sem hefst klukkan 15.15. Ástæðan fyrir tímasetingunni er sú að meðalatvinnutekjur kvenna eru 70,3% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 29,7% lægri tekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá klukkan 9–17.

Hér má nálgast nánari upplýsingar um samstöðufundinn á Austurvelli. Samstöðufundir hafa verið skipulagðir víða um land og á vefsíðunni Kvennafrí má finna upplýsingar um staðsetningu funda á landsbyggðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert