Geta gert kraftaverk með iPad

Eliza Reid, Yasuaki Haji ásamt móður sinni, Sigurður Helgason eigandi …
Eliza Reid, Yasuaki Haji ásamt móður sinni, Sigurður Helgason eigandi iStore og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands við afhendingu 50. ipadsins til langveikra barna, sem fram fór í Kringlunni í dag. mbl.is/Golli

Í dag afhenti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hinum fimm ára gamla Yasuaki Haji, iPad að gjöf frá versluninni iStore í Kringlunni. Yasuaki er fimmtugasta langveika barnið sem fær gefins iPad frá Sigurði Helgasyni, eiganda verslunarinnar.

Í samtali við mbl.is segir Sigurður að hann hafi gefið fyrsta iPadinn árið 2010, skömmu eftir að hann opnaði verslun sína í Kringlunni. „Ég fékk símtal frá föður langveikrar stúlku sem spurði mig hvort ég héldi að iPad gæti hjálpað henni eitthvað,“ segir Sigurður, en um var að ræða tveggja ára stelpu sem var að mestu leyti lömuð. „Á þeim tíma var iPadinn nýkominn á markað og eiginlega engin reynsla komin á þetta. Ég fór að kanna hvort ég gæti fundið eitthvert forrit til að örva hreyfingu, fyllti iPadinn minn af forritum og fór að hitta þau.“

Boðið var upp á 50 bollakökur, eina fyrir hvern iPad …
Boðið var upp á 50 bollakökur, eina fyrir hvern iPad sem gefinn hefur verið langveiku barni á síðastliðnum sex árum. mbl.is/Golli

Sýndi markvissar hreyfingar í fyrsta skipti

Að sögn Sigurðar sýndi stúlkan gríðarleg viðbrögð við forritunum á iPadinum og hreyfingar sem foreldrarnir höfðu aldrei séð. „Hún sýndi þarna markvissar hreyfingar í fyrsta skiptið,“ útskýrir Sigurður. „Ég varð bara að gefa þeim iPadinn, ég gat ekki misst af þessu tækifæri til þess að hjálpa henni.“

Sex mánuðum síðar var sama stúlka farin að keyra hjólastól. „Þetta var fyrsta kraftaverkið sem kom þessu af stað,“ segir Sigurður, en foreldrar stúlkunnar voru viðstaddir þegar fimmtugasti iPadinn var afhentur í dag.

Yasuaki og forsetanum kom vel saman í Kringlunni í dag.
Yasuaki og forsetanum kom vel saman í Kringlunni í dag. mbl.is/Golli

Allt greitt úr eigin vasa

Sigurður hittir börnin sem hann hefur gefið iPad árlega og býður þeim í veislu á sumrin. „Þá hittir maður foreldrana og fær að heyra hvernig þetta er að ganga. iPadinn hefur kennt mörgum þeirra til að mynda að tjá sig í fyrsta skiptið.“

Hann bendir á að í dag sé iPadinn notaður víða í kennslu og þjálfun og það sé gaman að hafa verið með þeim fyrstu sem sýndu fram á að langveik börn gætu notað spjaldtölvuna.

Spurður hvernig hann fjármagni gjafirnar segist hann borga þetta úr eigin vasa, án allra styrkja. „Mér finnst ég verða ríkari og ríkari með hverjum iPad sem er gefinn.“

Ein undantekning er reyndar á fyrirkomulaginu. „Fósturmamma eins stráksins sem fékk iPad var svo ánægð að hún hljóp í Reykjavíkurmaraþoninu til að safna fyrir einum. Hann verður gefinn á næstunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert