Eigandi buy.is ákærður fyrir 102 milljóna skattabrot

Maðurinn hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara vegna meintra skattabrota …
Maðurinn hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara vegna meintra skattabrota upp á 102 milljónir. Ófeigur Lýðsson

Fyrrverandi eigandi netverslunarinnar buy.is og bestbuy.is hefur verið ákærður ásamt eiginkonu sinni af embætti héraðssaksóknara vegna 102 milljóna skattsvika. Er bæði um að ræða stórfelld undanskot á virðisaukaskattgreiðslum hjá tveimur fyrirtækjum sem hann var í forsvari fyrir sem og að hafa ekki gefið upp 41,2 milljóna tekjur sínar á árunum 2011-2013 og þar með svikist um að geriða 16,5 milljónir í tekjuskatt.

Lengi verið ásakaður um kennitöluflakk

Málið kom fyrst upp í umfjöllun fjölmiðla árið 2012 þegar DV fjallaði um meint brot mannsins í tengslum við sölu á ýmiskonar tölvubúnaði, meðal annars Apple-vörum. Þá tjáðu umboðsaðilar Apple á Íslandi sig um viðskiptahætti mannsins og sögðu hann stunda kennitöluflakk þar sem hann greiddi aðeins fyrir vörurnar, en sleppti að greiða virðisaukaskatt og önnur gjöld áður en hann færði svo reksturinn á nýja kennitölu. Bannaði neytendastofa umboðsaðilanum í framhaldinu að viðhafa ummæli um kennitöluflakk og buy.is, en lagði þó enga sekt á viðkomandi.

Segir kennitöluflakk ekki vera siðlaust

Síðar bannaði Neytendastofa buy.is að nota heiti samkeppnisaðilans en hann hafði stofnað fyrirtæki með því nafni þótt samkeppnisaðili hans notaðist við sama nafn.

Maðurinn sem er ákærður tjáði sig á þessum tíma um það að hafa fært starfsemi buy.is á milli kennitalna og sagði á vefnum Verðvaktin að kennitöluflakk væri ekki einu sinni siðlaust. Síðar var meðal annars grein frá því að hann tengdist allavega 12 gjaldþrota félögum, en síðan þá hafa bæði Gegn einokun og 1949 bæst við. 

102 milljóna skattabrot

Samkvæmt ákæru málsins er manninum gert að hafa skilað röngum virðisaukaskattsskýrslum upp á samtals 83,6 milljónir á árunum 2012-2013 fyrir félagið Gegn einokun ehf. sem hann var bæði eigandi að og stýrði. Þá er hann sagður hafa staðið skil á röngum virðisaukaskattsskýrslum fyrir félagið 1949 ehf. upp á 2,5 milljónir árið 2013. Einnig er honum gert að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögbundið bókhald fyrir bæði félögin á tímabilinu.

Jafnfram er maðurinn ákærður fyrir að hafa á árunum 2011-2013 skilað inn röngum skattframtölum og þannig vantalið tekjur sínar um 41,3 milljónir og þar með tekjuskatt og útsvar um 16,5 milljónir. Samtals er því um að ræða skattalagabrot upp á rúmlega 102 milljónir króna.

Notaði fjármunina í kreditkortareikninga og fasteignakaup

Kemur fram í ákærunni að hann hafi notað 21,3 milljónir af meintum undanskotum fyrirtækisins til að greiða kreditkortareikninga sína og eiginkonu sinnar sem einnig er ákærð í málinu. Þá fóru 11,5 milljónir inn á reikning konunnar og var þeim ráðstafað í fasteignakaup. Eru þau bæði ákærð fyrir peningaþvætti vegna þessa hluta málsins.

Þá er farið fram á 5,1 milljón á reikning konunnar verði gerð upptæk sem og mikill fjöldi raf- og tölvutækja. Meðal annars er um að ræða 42 stykki af Samsung-farsímum, hundruð minnislykla, fartölvur og fjölmarga aðra farsíma og raftæki ýmiskonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert