Börn fari ekki ein í skólann

Ekki senda börn án fylgdar í skólann í dag.
Ekki senda börn án fylgdar í skólann í dag. mbl.is/Kristinn

Mjög hvasst er og mikil úrkoma og er mikilvægt að foreldrar gæti þess að börn, 12 ára og yngri fari ekki án fylgdar í skólann á höfuðborgarsvæðinu. Spáð er mjög snörpum vindhviðum við fjöll, allt að 35-40 metrum á sekúndu og er víða mjög hvasst á Suður- og Vesturlandi.

Vindasamast er undir Eyjafjöllum, á Kjalarnesi, við Hafnarfjall og á norðanverðu Snæfellsnesi en Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að veðrið verði í hámarki fram að hádegi. 

Haraldur segir að það verði áfram hvasst um helgina en ekkert í líkingu við það sem nú er. Rjúpnaskyttur ættu að fylgjast með veðurspá og ef farið er til veiða á morgun ættu þær að búa sig vel enda áfram rok og rigning þá. 

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að það er orðið hvasst víða og fer hátt í 30 metra á sekúndu í hviðum á Reykjanesbraut og á fleiri fjölförnum leiðum. Þar kemur fram að reikna megi við allt að 40 m/s á milli klukka  7 og 11 undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi. 

Óveður er á Reykjanesbraut, Grindarvíkurvegi, Sandskeiði, undir Hafnarfjalli og undir Eyjafjöllum.

Það er hálkublettir á Bröttubrekku. Vetrarfærð er á flestum fjallvegum á Vestfjörðum, þar er nokkur hálka, krap eða snjóþekja.

Hálkublettir eða hálka eru á fáeinum vegum á Norður- og Austurlandi.

Slökkvilið og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendu í morgun frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að rok og rigning geti seinkað ferðum nemenda til skóla. Skólar eru opnir, en mikilvægt er að foreldrar gæti þess að yngri börn fari ekki ein í skóla, þetta á sérstaklega við í efri byggðum og þar sem börn þurfa að fara yfir opin svæði á leið sinni í skóla.

Með yngri börn er hér átt við 12 ára og yngri.

Nánari upplýsingar eru á Facebook-síðu slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og lögreglu höfuðborgarsvæðisins.

Veðurspáin:

Suðaustan hvassviðri eða stormur í dag með talsverðri eða mikilli rigningu sunnan- og vestanlands. Hiti víða 5 til 10 stig. Fer að lægja síðdegis og skúrir eða slydduél vestantil í kvöld. Vestan 10-18 m/s á morgun, hvassast við norðurströndina. Rigning í fyrstu austanlands en léttir síðan til. Annars víða skúrir eða él og hiti 0 til 5 stig.

Á laugardag:
Vestan 10-18 m/s, hvassast við N-ströndina. Rigning A-lands, en léttir til eftir hádegi, annars skúrir eða él. Snýst í sunnan 10-15 um kvöldið með slyddu eða rigningu SV-til. Hiti 0 til 5 stig.

Á sunnudag:
Suðvestan 10-18 og rigning, einkum S- og V-lands. Hiti 5 til 10 stig. Heldur hvassara og skúrir eða slydduél síðdegis, en léttir til á A-landi. Kólnandi veður.

Á mánudag:
Suðvestanátt og skúrir eða él, en þurrt NA-til á landinu. Hiti 0 til 5 stig.

Á þriðjudag:
Suðvestanátt og slydda eða rigning, en snjókoma í innsveitum. Hiti nálægt frostmarki.

Á miðvikudag:
Vestanátt og él, en þurrt og bjart veður A-lands. Vægt frost.

Á fimmtudag:
Norðanátt og kalt í veðri. Snjókoma fyrir norðan, en úrkomulítið sunnan heiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert