Gríðarlegt tjón í eldsvoðanum

Slökkviliðsmenn eru enn að störfum að Miðhrauni á sunnanverðu Snæfellsnesi en tvö stór hús eru hrunin á jörðinni. Í báðum var hausaþurrkun en þriðja húsinu, sem er ný byggt, tókst að  bjarga, að sögn Bjarna Þorsteinssonar, slökkviliðsstjóra í Borgarnesi.

Frétt mbl.is: Mikill eldur í fiskþurrkun á Snæfellsnesi

Við erum að slökkva í glæðum í þeim húsum sem eru fallin, segir Bjarni en um gríðarlegt tjón er að ræða. Ekki liggur fyrir hversu mikið magn af fiski var í húsunum enda ekki mögulegt að fara inn í rústirnar strax. Altjón er á þessum tveimur húsum. Enginn býr á jörðinni og var það flutningabílstjóri sem átti leið framhjá um fimmleytið í morgun sem lét Neyðarlínuna vita af eldinum.

Allt tiltækt slökkvilið í öllum bæjum á Snæfellsnesi fór á staðinn sem og slökkviliðið í Borgarnesi og Akranesi.

Miðhraun er skammt frá Vegamótum, í Eyja- og Miklaholtshreppi.

Bætt við klukkan 10:17

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vesturlandi eru eldsupptök ókunn og ekki hægt að hefja tæknirannsókn á staðnum fyrr en síðar í dag. Fyrst verði að slökka í öllum glæðum, kæla og tryggja vettvang. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert