Leitað í ævintýri æskunnar

Hjalti Parelius Finnsson myndlistarmaður leitar í ofurhetjur og ævintýri í …
Hjalti Parelius Finnsson myndlistarmaður leitar í ofurhetjur og ævintýri í myndlist sinni. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Þegar ég var búinn að fara í gegnum allar afsakanir í bókinni og meira að segja búinn að missa vinnuna var ekkert annað eftir en að snúa mér að listinni og mála nokkrar myndir,“ segir Hjalti Parelius Finnsson myndlistarmaður hlæjandi.

„Ég var einn af þessum sem höfðu aldrei tíma til að mála eða áttu ekki réttu tólin til þess. Það var ekki fyrr en ég missti vinnuna í hruninu 2008 að ég sagði við sjálfan mig að nú hefði ég eiginlega engar afsakanir eftir.“

Hjalti hélt fyrstu sýningu sína á Ljósanótt í Reykjanesbæ árið 2009 og hefur áhuginn á verkum hans farið vaxandi með hverri sýningunni.

„Ég seldi um 60 prósent verka minna á fyrstu sýningunni, sem var mjög gott fyrir egóið, og nú er svo komið að fólk kaupir af mér myndir byggðar á skissum áður en ég er búinn að mála sjálfa myndina.“

Nú er svo komið að verk Hjalta eru það eftirsótt að þau seljast gjarnan áður en hann hefur lokið við þau. Myndefnið er oft myndasögupersónur og ýmsar þekktar persónur úr mannkynssögunni.

Nördaefnið sem varð vinsælt

Hjalti segir áhugann á málaralistinni alltaf hafa verið til staðar. Í grafísku námi í Kaupmannahöfn hafi hann sótt einstaka námskeið sem tengdust listinni en það var að hans sögn fyrst og fremst fyrir hann sjálfan og átti aldrei að verða neitt meira.

„Ég ætlaði ekki að verða myndlistarmaður en hef alltaf haft áhuga og gaman af list,“ segir hann hugsi og bætir við að í raun sé hann að sameina tvö áhugamál úr æsku. „Nördar fóru meðfram veggjum á uppvaxtarárum mínum og ég átti samleið með þeim, átti í raun vini úr öllum hópum. Ofurhetjusögur Marvel, DC o.fl. voru minn heimur og þangað sæki ég innblástur í verk mín í dag.“

Tíðarandinn hefur breyst og í dag eru ofurhetjur og ævintýri ekkert feimnismál. Þvert á móti eru stærstu Hollywood-myndir hvers árs sögur úr einhverju ævintýri eða teiknimyndasögublaði. En hvað er í uppáhaldi hjá Hjalta? „Þá bíómynd eða teiknimyndasaga? Þetta er góð spurning. Mér finnst kvikmyndirnar frá Marvel Comics skemmtilegri en frá DC. Það er meiri húmor í þeim, en ofurhetjur DC eru mjög svartar og flestar í einhvers konar tilvistarkreppu. Uppáhaldsofurhetjan mín kemur frá DC, en ég hef alltaf verið smá veikur fyrir sjálfri Wonder Woman.“

Sýnir í Berlín og Los Angeles

Hjalti hefur haldið fjölda einkasýninga hér á landi og tekið þátt í nokkrum samsýningum. Hann er núna staddur í Berlín, þar sem hann vinnur að nýjustu sýningu sinni. „Ég er ekki kominn með dagsetningar á hreint en næstu sýningar hjá mér verða í Berlín og Los Angeles.“

Mikil eftirspurn er eftir verkum Hjalta og lauk hann nýlega tveggja ára vinnu við tvö risaverk fyrir lyfjaframleiðandann Alvogen.

„Þetta eru stór verk sem mikil vinna liggur á bak við en þeir sem hafa áhuga á einhverju sem á að hengja upp í stofu geta t.d. skoðað verk mín á heimasíðu minni,“ segir Hjalti.

Mikil eftirspurn er eftir verkum Hjalta.
Mikil eftirspurn er eftir verkum Hjalta.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert