Hægt að velja bestu þjónustuna

Tvær nýjar heilsugæslustöðvar, Heilsugæslan Höfða Heilsugæslan Urðarhvarfi verða opnaðar á höfuðborgarsvæðinu í febrúar á næsta ári til þess að bæta aðgengi að heilsugæslunni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Sjúkratryggingum Íslands.

Þar segir enn fremur að í lok síðasta mánaðar hafi 21.771 íbúi á höfuðborgarsvæðinu verið óskráður á heilsugæslustöð. Það þýði að tíundi hver íbúi hafi átt eftir að velja sér heilsugæslustöð tveimur mánuðum fyrir nýskipan heilsugæslunnar um næstu áramót.

„Til að tryggja öfluga heilsugæslu, bætt aðgengi að góðri og heildstæðri heilbrigðisþjónustu, skiptir miklu máli að allir sjúkratryggðir velji og skrái sig á heilsugæslustöð eða hjá sjálfstætt starfandi heimilislækni sem fyrst. Hver og einn ræður því hvar hann er skráður og getur valið þá stöð sem honum hentar með tilliti til búsetu eða atvinnu.

Umfram allt getur hann valið þá stöð sem að hans mati veitir góða þjónustu. Skráningunni fylgir auk þess fjárveiting frá sjúkratryggingunum. Valið virkar þannig bæði sem viðurkenning og hvatning fyrir heilsugæslustöðvar og lækna sem geta fjölgað í sínu samlagi og vilja vera til fyrirmyndar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert