Að finna hjartafrið

Björg Þórhallsdóttir
Björg Þórhallsdóttir mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Björg Þórhallsdóttir hefur lifað ævintýralegu lífi. Áföll og sorgir hafa bankað upp á en alla reynslu nýtir hún til góðs. Í Noregi er hún þekkt sem listakona, rithöfundur og fyrirlesari. Umfram allt vill hún þó hjálpa fólki og gera heiminn örlítið betri. Hún hefur búið víða um heim og meðal annars lesið upp úr bók sinni fyrir kardínála í Vatíkaninu. Aðeins 26 ára giftist hún 56 ára breskum málara í Frakklandi eftir korterskynni. Þegar sonur þeirra, Tolli, var á þriðja ári féll eiginmaðurinn frá og fluttu mæðginin aftur til Noregs og tóku ekkert með sér nema málningardollur Picassos.

Björg býr á lítilli eyju rétt fyrir utan Ósló með einkasyninum og augasteininum Tolla, sem heitir Þórhallur í höfuðið á afa sínum. Hann er þrettán ára og fylgir móður sinni víða um heim því Björg er alltaf á faraldsfæti. Næsti viðkomustaður er Úganda í janúar, þar sem hún hyggst hjálpa bágstöddum konum. En spólum aðeins til baka.

Björg er fædd á Ísafirði árið 1974 og flutti með foreldrum sínum til Noregs á unga aldri. Hún er ein þriggja systra og er faðir hennar, Þórhallur Guðmundsson, verkfræðingur og móðir hennar, Herdís Pálsdóttir, er þerapisti. Systir hennar, Dóra Þórhallsdóttir, er þekktur uppistandari í Noregi. Sjálf er Björg landsþekkt í Noregi, bæði fyrir listaverk sín, bækur og sorgarhreyfingu sem hún hefur hrint af stað.

Mæðginin Tolli og Björg
Mæðginin Tolli og Björg

Björg lærði myndlist á Spáni, Frakklandi og í Noregi og dvaldi hér á landi í eitt ár og lagði stund á myndlist þegar hún var um tvítugt. Eftir það hélt hún af stað út í heim, nánar tiltekið til Suður-Evrópu, þar sem hún ferðaðist um ásamt vinkonu, en þær unnu fyrir sér með því að búa til glerlist fyrir kirkjur. Lífið var ljúft og skemmtilegt.

Grét yfir földum listaverkum

Eftir nokkur ævintýraleg ár tók lífið óvænta stefnu. „Ég var að búa til glerglugga fyrir kirkjur úti um alla Evrópu. Svo var ég að búa til glerglugga fyrir rosalega ríkan mann sem bjó í Suður-Frakklandi. Við áttum að búa til þrjá glugga og það tók alveg hálft ár. Þeim fannst voða gaman að hafa svona ungar listakonur því þetta voru allt „business“-menn, ég held að við höfum verið eins og hirðfíflin voru í gamla daga,“ segir Björg og hlær hátt.

Björg Þórhallsdóttir býr á lítilli eyju rétt fyrir utan Ósló …
Björg Þórhallsdóttir býr á lítilli eyju rétt fyrir utan Ósló með einkasyninum og augasteininum Tolla. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Hann Ray, sem ég var að vinna fyrir, bauð mér dag einn að skoða málverkasafnið sitt. Og ég hugsaði, ó nei, hann ætlar að sýna mér „frímerkjasafnið“ sitt!“ segir Björg og skellihlær. Hún segist hafa tekið vinkonuna með til halds og trausts.

Lóð ríka mannsins var svo stór að það þurfti að keyra á milli húsanna á golfbíl. Það gerðu þau til að komast að húsinu sem geymdi listaverkasafnið. „Við komum að húsi sem ég hafði ekki séð áður, það var alveg gluggalaust og bara ein hurð. Svo opnaði hann dyrnar og kveikti ljósið og þá byrjaði ég að gráta. Ég er búin að vera að læra listasögu allan tímann sem ég hef lært list, í tíu ár. Og oft hef ég séð verk í bókum og hef hugsað, þetta vil ég sjá þótt ég þurfi að fara hvert sem er í heiminum. Og þá stendur oft undir: in private collection. Og þá veit ég að maður á aldrei eftir að sjá þessi verk. En svo opnaði hann þessa dyr og þar blasti við Picasso frá bláa tímabilinu. Sem ég elska og hélt ég myndi aldrei fá að sjá. Og það var Rembrandt þarna. Og tárin bara runnu. Þetta var eins og draumur að rætast,“ segir Björg.

Systurnar Dóra og Björg.
Systurnar Dóra og Björg.

„Svo var á einum vegg mjög stórt málverk í olíu af manni sem var að synda í kafi. Og það var eitthvað við hvernig ljósið skein á líkama hans. Þetta var bara eitt fallegasta málverk sem ég hafði séð, og ég skildi ekki hvernig listamaður á okkar tímum gæti kunnað að mála svona. Það tekur mörg ár að mála eitt svona málverk. Hver gerir svona? Og þá sagði Ray, það er Eric Scott, hann býr hérna rétt hjá. Og þá keyrðum við golfbílinn að röð af bílum og ég fékk að velja einn bíl og ég valdi Bentley. Ég elska bíla!“ segir Björg, en hún fékk að keyra þann bíl heim til listamannsins.

Would you like to marry me then?

Við hús Erics mátti finna kaffihús og gallerí og settust þau niður á kaffihúsinu. „Þar sem við sátum og biðum eftir að listamaðurinn kæmi sé að maður kemur gangandi. Ég hugsaði bara, jesús! Sex on legs!,“ segir hún og hlær. „Ég var svo nervös að ég þurfti að biðja þjónustustúlkuna að gefa mér eitthvað sterkara en kaffi! Hann var svo myndarlegur. Og hann settist niður og við byrjuðum að tala saman, um listasögu. Eftir korter segir hann við mig: So Björg, would you like to marry me then?“ segir Björg með breskum hreim. „Og ég sagði auðvitað já.“

Og meintirðu það?

„Já. Ég fylgi alltaf hjartanu. Svo fórum við stuttu síðar til Miami og giftum okkur en ég flutti beint inn til hans. Ég lét ekkert mömmu og pabba vita og auðvitað var pabbi ekkert glaður. Stuttu síðar héldum við almennilegt brúðkaup, þriggja daga brúðkaup í Suður-Frakklandi og fengum lánað húsið hjá Dave Stewart sem var með Annie Lennox í Eurythmics,“ segir Björg, en nýi eiginmaðurinn var þrjátíu árum eldri en hún. „Ég var 26 en hann 56.“

Sambúðin reyndist ekki áfallalaus. „Hann var alkóhólisti en það vissi ég ekki þegar ég giftist honum. Það var bara partí á hverjum degi og ég tók ekkert eftir því. Það var alltaf voðalega gaman. En svo varð ég ólétt og þá hætti ég að drekka,“ segir hún og útskýrir að þá hafi hún áttað sig á alkóhólisma eiginmannsins. „En ég er samt voðalega þakklát. Ég er virkilega búin að elska mann og hann elskaði mig. Ég þorði að elska. Ég þorði að fylgja hjartanu og er búin að læra helling af því. Mér finnst alla vega að ég sé búin að lifa lífinu,“ segir hún.

Björg segir að hún hafi oft flutt út frá honum og hann hafi reynt að hætta að drekka. „Maður hættir ekkert að elska manneskju þótt hún drekki. Ég var líka svo ung. Ef þetta væri núna væri ég farin.“

„Ég missti allt þegar hann dó“

Eric lést úr astma þegar sonur þeirra Tolli var þriggja ára. „Ég var í Noregi að keyra og nágranninn hringdi í mig með fréttirnar. Ég elskaði hann enn þegar hann dó, ég missti allt þegar hann dó,“ segir Björg, en hún hefur verið ein með drenginn síðan þá. Hún segist hafa lítinn tíma fyrir ástarsamband. „Ég er svo heppin að það hefur gengið vel í listinni og ég ferðast svo mikið að ég hef eiginlega ekki tíma til þess. Ég hef alveg átt kærasta inni á milli en það er ekkert sem skiptir meira máli en Tolli og þar sem ég hef svona lítinn tíma vil ég nota þann tíma með honum. Samt langar hann ekkert allt of mikið að vera með mér!“ segir hún skellihlæjandi, en drengurinn er orðinn táningur.

Eftir dauða Erics tók við erfiður tími. „Ég man svo lítið frá þessum tíma, ég var svo ótrúlega leið. Ég var í svo djúpri sorg. Ein vinkona mín frá Spáni tók allt spariféð sitt og flutti frá Spáni til mín til að passa upp á mig. Ég var í svo djúpri sorg að ég var ekki góð mamma og hún hjálpaði mér með hann. Finnst þér það ekki fallegt?“ spyr hún og ekki er hægt að neita því.

Fyrrverandi konurnar hirtu allt

Eric hafði átt þrjár eiginkonur og fjögur börn áður en Björg kom inn í líf hans. Björg segir að fyrrverandi konurnar hafi hreinlega hirt allt dánarbúið. „Ein þeirra kom frá Englandi með vörubíl, stoppaði fyrir utan galleríið og tók öll málverkin. Fólk er svo rosalega frekt. Og það var enginn sem gerði neitt. Hún tók með sér allt, en skildi tvær myndir eftir. Síðustu myndin sem hann málaði, mynd af Tolla á ströndinni, og svo var voðalega skrítið að hún tók ekki nektarmyndina af mér,“ segir hún og hlær.

Björg átti rétt á arfi en ákvað að sækja ekki rétt sinn. „Þær voru svo leiðinlegar og mér var alveg sama. Þegar maður er svona langt niðri hefur maður ekki orku í svona slag. Eric hafði þekkt Picasso og átti þrjár dollur sem Picasso blandaði málningu sína í og það var enginn sem vissi hvað þetta var. Þannig að ég er með þær heima og þegar ég er að mála blanda ég málningu í þeim,“ segir hún.

Björg segir að barnið hafi fundið fyrir sorginni. „Tolli fann stressið og var að kasta upp í tvær vikur og ég þurfti að passa upp á þetta litla barn þannig að ég vildi bara frið. Þannig að ég kom heim til Noregs og það eina sem ég var með var kerra og ein ferðataska og tvö málverk. Svo var ég með poka af mínum grafíkverkum. Ég var ekki með neinn pening. Við höfðum verið með sameiginlegan bankareikning og þegar þessar konur komu tóku þær líka minn pening. Þannig að ég missti allt. En ég hugsaði bara, veistu hvað? Ég get bara búið til pening. Ég nenni ekki að slást, ég bý bara til nýjan pening. Þannig að ég gekk á milli gallería og sýndi myndirnar mínar. Og fyrsta galleríið sem ég kom inn í var fólk sem var að skoða það sem var þar fyrir. Svo sá það verkin mín og spurði hvort það mætti kaupa eftir mig,“ segir Björg og eftir það fór boltinn að rúlla.

Hjartafriður hjálpar fólki í sorg

Björg málar, gerir grafíkverk og semur ljóð. Hún hefur gefið út dagbækur sem eru skreyttar myndum og ljóðum eftir hana en það er ekki allt og sumt.

„Ég hef haldið sýningar úti um allan heim og er með sýningar í Noregi og svo hef ég gefið út tólf bækur. Ég gaf út eina barnabók sem heitir Pabbi býr á himnum. Þegar Eric dó startaði ég líka uppákomu,“ segir Björg og útskýrir að hún hafi átt frumkvæði að og stýrt nokkurs konar samkomu þar sem fólk safnast saman til að tala um sorg og dauða og finna hjálp í samkenndinni. „Í fyrsta skipti komu fimm hundruð manns, annað árið komu tvö þúsund og þriðja árið komu fimm þúsund manns. Það heitir Hjartafriður, eða Hjertefred á norsku. Þetta er haldið niðri við á fyrir utan Ósló og þar kemur drengjakór og syngur Requiem og svo eru fleiri hundruð ljós sem eru fljótandi á ánni og svo kemur óperukór á vagni og syngur,“ segir hún.

Dauðinn þarf ekki að vera tabú

„Það sem gerðist þegar Eric dó var að það voru svo margir sem þorðu ekki að tala við mig. Hræddir um að segja eitthvað vitlaust. En það eina sem ég vildi var að fólk knúsaði mig. En í staðinn fjarlægðist fólk af því að dauðinn er svo mikið tabú. Það er svo mikill ótti. Ég hafði búið í Mexíkó í eitt ár og þegar fólk dó þar sátu ættingjar uppi á gröfinni, töluðu, borðuðu og voru að hlæja og gráta. Og það gerði það að verkum að sorgin rann af þeim. Ég vildi búa til eitthvað sem væri svo fallegt og fullt af kærleik. Ekki eitthvað dimmt eins og mér fannst dauðinn vera í okkar löndum. Eins og í kirkjunni, allt er svo alvarlegt. Í dag er þetta á 26 stöðum í Noregi,“ segir hún, en í kringum 3-5 þúsund manns sækja hverja samkomu árlega. „Það er til svo margs konar sorg; sorg þegar þú ert að skilja, þegar þú verður veikur og missir heilsuna, sorg yfir að þú fékkst ekki þá æsku sem þú hefðir kosið,“ útskýrir Björg.

„Ég fann bara upp á þessu af því að ég hafði þörf á því og núna fæ ég fleiri þúsund bréf á hverju ári frá fólki sem hefur farið á Hjertefred, fólki sem hefur byrjað að gráta og getur ekki hætt. Það fær útrás fyrir sorginni. Það er gott að tala um dauðann, þá verður það normalt. Það er alveg ótrúlegt. En ég hefði aldrei getað gert þetta ef ég hefði ekki sjálf verið búin að upplifa svona stóra sorg og ef svona margir hefðu ekki hjálpað mér. Það eru fleiri hundruð manns sem vinna í sjálfboðavinnu við þetta. Ég er búin að gera þetta núna í ellefu ár. Ég ákveð hvernig þetta á að vera og svo er það gert eins og á öllum hinum stöðunum,“ segir hún. „Nú er byrjað að nota þetta í kirkjum í Noregi líka og það er alltaf einhver sem talar, sem deilir með öðrum reynslu sinni af því hvernig það er að missa einhvern.“

Barnabók, ferðabók og ljóðabækur

Fyrir nokkrum árum var Björgu boðið að koma í Vatíkanið að hitta páfann. „Ég hitti hann og alla kardínálanna og las upp úr bókinni minni Pabbi býr á himnum. Og þá táruðust allir kardínálarnir. Svo kom nunna gangandi með vagn og bauð mér martini. Þetta var súrrealískt,“ segir hún og skellihlær.

Spurð á hvaða tungumáli hún las upp fyrir menn Páfagarðs segist Björg hafa snarað bókinni yfir á ítölsku. „Ég tala fullt af tungumálum, spænsku og ítölsku eftir að hafa búið þar,“ segir Björg, en hún hefur ekki enn gefið út barnabókina hérlendis.

„Ég er búin að skrifa sex ljóðabækur og síðustu þrjár bækurnar eru um lífsspeki, hvernig hægt er að lifa hamingjusömu lífi. Þetta eru ekki sjálfshjálparbækur. Síðasta bókin mín Vejen til lykke var yfir 40 vikur á metsölulista í Noregi. Ég er einn söluhæsti rithöfundurinn í Noregi, síðasta bókin mín seldist í yfir 20 þúsund eintökum og hinar bækurnar hafa verið endurútgefnar fimm eða sex sinnum,“ segir Björg, en hér á landi má kaupa dagbækurnar hennar Tíminn minn og á næsta ári verður gefin út hérlendis metsölubókin Vejen til lykke.

„Svo er ég líka fyrirlesari. Rétt áður en ég kom hingað talaði ég fyrir framan níu hundruð konur, í þrjá klukkutíma. Með systur minni, Dóru. Hún er rosalega fyndin. Hún hefur tvisvar verið tilnefnd sem besti uppistandari Noregs,“ segir Björg.

Björg segist vera mikill Íslendingur og heimsækir hér ættingja á hverju ári. „Ég er núna að skrifa ferðabók um Ísland. Ég veit að það er vandamál að ferðamenn fara allir á sömu staðina, það þarf að dreifa þeim meira, þannig að ég ætla að skrifa um staði, eins og Vestfirði, þar sem ekki eru margir túristar en þar sem vilji er fyrir fleiri túristum. Reyna að fá þá til að koma líka á öðrum tímum ársins, eins og núna,“ segir Björg og sýnir mér mynd af bókinni.

Er hún tilbúin? spyr blaðamaður hissa.

„Nei, bara forsíðan!“ segir hún og skellihlær. „Ég er búin að selja hana í allar bókabúðirnar, ég er að skrifa hana núna. Ég er búin að ferðast mikið og er að setja hana saman.“

Ákvað að framleiða betra freyðivín

Björg segir þær systur hafa lært af foreldrum sínum að komast áfram með dugnaði. „Pabbi er voða mikill Íslendingur og hefur kennt okkur að standa okkur. Maður á að standa sig og vinna vel,“ segir hún.

Þótt blaðamanni finnist þegar hér er komið í viðtalinu að Björg hafi í nógu að snúast á hún enn eftir að segja frá mörgum nýjum verkefnum. Eitt af þeim er vínframleiðsla.

„Þegar ég kom til baka til Noregs fannst mér svo lélegt freyðivín sem vinkonurnar voru að bjóða mér að ég byrjaði að búa til freyðivín og er núna að framleiða freyðivín sem heitir Lykke Bobler. Og það er þriðja mest selda freyðivínið í Noregi. Bara núna síðustu þrjá mánuði seldum við 120 þúsund flöskur. Og svo byrjaði ég að búa til rauðvín líka sem heitir Skravlevin,“ segir Björg og útskýrir að það þýðir eiginlega „kjaftavín“. Það selst líka mjög vel.“ 

Björg og Dóra systir hennar eru að fara saman í norska sjónvarpið, en þær hafa verið ráðnar til að koma fram og stýra þætti til að hjálpa fólki. „Fyrst ég er að hjálpa svo mörgum með myndunum mínum og Dóra er þerapisti og uppistandari ætlum við að vera með svona „extreme makeover“ en ekki að utan, heldur að innan. Við finnum fólk sem elskar ekki sjálft sig, sem hugsar ekki vel um sig og hefur það ekki gott og hjálpum því í gegnum þerapíu og í gegnum myndirnar mínar og hjálpum því að elska sjálft sig. Og þá sér fólk hvernig allt breytist, þá vill fólk gera svo margt rétt,“ útskýrir Björg, en þær munu fylgja fólki eftir í heilt ár.

Hjálpar konum víða um heim

Björg vinnur ötullega við að hjálpa konum sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. „Ég vinn mikla sjálfboðavinnu af því að ég er svo heppin að það gengur svo vel með listina, vínið, bollana, stellið, skartgripina og allt annað sem ég geri,“ segir Björg og blaðamaður áttar sig á því að það eru fleiri klukkutímar í sólarhringnum hjá viðmælanda en okkur hinum. „Ég fer um allan Noreg og í „krisecentra“ og tala við konur. Svo skreyti ég veggina með myndum eftir mig. Þú myndir ekki halda að það hefði mikið að segja en það gerir það. Á einum stað er ég búin að mála konu sem teygir sig eftir stjörnu. Og ég skrifaði við hana, draumarnir geta verið þínir ef þú vilt. Og ég er búin að fá svo mörg bréf frá konum sem hafa verið þarna inni og hafa verið að gefast upp á lífinu, sem segja mér að þær horfi á þessa mynd og hugsi, já, ég ætla að láta draumana rætast,“ segir hún.

Björgu nægir ekki að hjálpa norskum konum. Hún stýrir verkefni í Mexíkó sem lýtur að því að selja framleiðslu fátækra kvenna sem sjá sér farborða með vefnaði. Björg hefur dreift vörum þeirra í 120 verslanir í Noregi og sendir ágóðann til kvennanna.

Hún flettir í gegnum símann sinn til að sýna mér myndir. Við blasir mynd af henni á brimbretti. „Sjáðu, ég bjó á Hawaii síðasta vetur, ég flutti þangað í sex mánuði með Tolla, Dóru og krökkunum,“ segir Björg eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Hvað varstu að gera þar?

„Ég skrifaði þrjár bækur og málaði myndir. Það var alveg æðislegt. Ég lærði reyndar á brimbretti á Balí, en ég bjó þar líka í hálft ár fyrir nokkrum árum,“ segir hún.

Þú ert með svo mörg verkefni í gangi!

„Já, ég veit það, ég er ekki búin að segja frá helmingnum,“ segir hún.

„Nú er ég að hefja verkefni í Úganda og ætla að hjálpa svona sjö, átta þúsund konum og börnum þeirra. En þegar ég hjálpa einni konu hjálpar maður alltaf tuttugu,“ segir hún og hyggst hún hjálpa þessum konum á sama hátt og hún hjálpar konunum í Mexíkó. „Þá geta þær menntað börnin sín. Ég ætla að hjálpa konum sem hafa orðið fyrir ofbeldi og dottið út úr samfélaginu og fá ekki hjálp. Og líka konum sem hafa orðið óléttar eftir nauðgun,“ segir hún.

Má ekki þegja yfir kynferðisofbeldi

Björg á erfiða reynslu að baki. „Mér var nauðgað þegar ég var lítil og ég veit hvað það eyðileggur mikið. Ég hef ekkert farið djúpt í það sem gerðist en er opin með það af því að ég vil að allar aðrar konur sem hafa upplifað slíkt þori að segja frá. Annars eyðileggur það svo mikið af lífinu. Maður þarf að fá hjálp. Í síðustu viku hringdi í mig kona sem er 55 ára. Hún hafði heyrt mig tala og hafði aldrei sagt neinum frá. Hún grét og grét og þetta hafði eyðilagt svo mikið af lífinu hennar, henni var nauðgað þegar hún var 12 til 14 ára. Og hugsaðu þér, í fjörutíu ár hafði þetta eyðilagt lífið hennar. Og svo þorði hún að segja mér frá þessu. En ég var svo heppin að ég fékk góða hjálp en ég var átta ára þegar það gerðist í fyrsta skiptið. Það var í Noregi. Svo kom það fyrir síðar tvisvar í Mexíkó. En vegna þess að þetta kom fyrir mig hef ég getað hjálpað fleiri þúsund konum í Noregi,“ segir Björg, sem fer um allan Noreg og heldur fyrirlestra fyrir konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi en einnig fyrir aðstandendur alkóhólista. „Ég get hjálpað fólki af því að ég hef upplifað það. Ég hef unnið mig í gegnum þetta. En það er ekki hægt að ganga um með þetta einn, það er svo vont. Maður þarf að fá hjálp.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert