Þarf að endurskoða ansi margt

Þingflokkur VG. Hvorki Lilja Rafney né Steingrímur vilja útiloka stjórnarsamstarf …
Þingflokkur VG. Hvorki Lilja Rafney né Steingrímur vilja útiloka stjórnarsamstarf við neina flokka. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Menn eru auðvitað með símann opinn,“ segir Steingrímur Sigfússon, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þegar mbl.is spurði hann um þær óformlegu stjórnarmyndunarviðræður sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hvatti formenn flokkanna og þingmenn til að skoða.

„Auðvitað heyrast menn sem hafa þekkst í gegnum árin. Það er bara eins og gengur og það hafa allir fullt frelsi til þess núna. Annars er það er nú bara formaðurinn sem talar fyrir okkur,“ bætti hann við.

Sjálfur kveðst Steingrímur hafa verið meira í því að heyra í sínu fólki um helgina og meta stöðuna. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, tekur í sama streng og kveðst mest hafa heyrt í baklandinu um helgina. „En ég hef auðvitað verið að heyra í fólki undanfarna daga, ýmsum öðrum en félögum mínum, og veit svona nokkuð hvað klukkan slær varðandi væntingar og annað,“  sagði Lilja Rafney.

Spurð hvernig henni lítist á stöðuna, segist hún telja að þingmenn verði að endurskoða ansi margt við núverandi aðstæður. „Bæði í viðhorfum gagnvart hverju öðru í þessum flokkum og eins hvort það séu einhverjir samlegðarpunktar sem við getum mæst á án þess að við séum að svíkja okkar málstað.“

Má deila um hvort Viðreisn eða Sjálfstæðisflokkur sé lengra til hægri

Möguleikann á samstarfi Sjálfstæðisflokksins og VG hefur ítrekað borið á góma frá því að úrslit kosninganna lágu fyrir. Hvorki Steingrímur né Lilja Rafney vilja útiloka neitt í þeim efnum.

„Það hefur verið alveg skýrt eins og við höfum sagt alveg frá byrjun að þá er lengst á milli þessara flokka málefnalega, þótt það megi kannski deila um það hvort Viðreisn eða Sjálfstæðisflokkurinn sé lengra til hægri,“ segir Steingrímur. „Það liggur einfaldlega þannig, að málefnalega þá er það náttúrulega stærsta bilið að brúa þótt við höfum ekki verið með neinar útilokanir.“

Lilja Rafney kveðst telja að VG verði að skoða þennan möguleika með sömu gleraugum og stjórnarmyndunarviðræður við aðra flokka hafa verið skoðaðar undanfarna viku.  „Nú liggur sú ábyrgð hjá stjórnmálamönnum að skoða alla vinkla, það getur enginn skorast undan því. Síðan ræðst það bara hvort það sé hægt að sameinast um eitthvað sem er ásættanlegt við þessar aðstæður.“

Aðalatriðið í þessu máli er að hennar mati að menn vinni úr þessum aðstæðum. „Það þurfa allir að skoða hvort það sé hægt að setja einhver ágreiningsmál til hliðar og sameinast um eitthvað annað, en það er ekkert hægt að taka afstöðu fyrir fram til einhvers sem ekki liggur á borðinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert