Ekki leyst með aðeins einni leið

Byrjað var að færa Framengjar, suður af Mývatni, til fyrra …
Byrjað var að færa Framengjar, suður af Mývatni, til fyrra horfs með því að moka ofan í framræsluskurði í sumar. Með endurheimt votlendis er hægt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. ljósmynd/Birkir Fanndal Haraldsson

Enginn vafi leikur á því að aðgerðir til að endurheimta votlendi á Íslandi myndu skila árangri í að draga úr losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum en ekki er hægt að leysa vandamálið með þeirri leið einni, að sögn prófessors við Landbúnaðarháskólann. Vistfræðingur telur næg gögn liggja fyrir til að ráðast í stórar aðgerðir á þessu sviði.

Skógræktarstjóri og fagmálastjóri Skógræktarinnar hafa lýst efasemdum um að nægilega miklar upplýsingar liggi fyrir um losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstum mýrum og hvaða árangri það skilaði að bleyta upp í þeim. Í samtali við Mbl.is lýstu þeir undrun sinni á að flestir stjórnmálaflokkanna hefðu gert endurheimt votlendis að helstu tillögu sinni að aðgerðum í loftslagsmálum.

Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor í skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, tekur undir að meira mætti vera til af birtum vísindalegum rannsóknum frá Íslandi þó að mikið sé til af þeim erlendis. Hann bendir hins vegar á að endurheimt votlendis hafi verið samþykkt sem gild mótvægisaðgerð innan Kýótósamningsins og að næg vitneskja sé til staðar til að menn viti að hún skilaði árangri.

„Hún myndi skila miklum árangri ef það yrði sett mikið fjármagn í hana en hún er líka flóknust að staðfesta árangurinn eftir á því hann er ekki mælanlegur með beinum hætti eins og við getum mælt eldsneytisnotkun eða uppsöfnun á kolefni í skógræktar- og landgræðsluaðgerðum. Það þarf alla vegana að tryggja það ef það verður ráðist í þetta á stórum skala að það fylgi því stórauknar rannsóknir og aðgerðir til þess að staðfesta árangurinn. Þetta er ekki bara að moka ofan í skurð sem kostar lítið og gera ekkert annað,“ segir hann.

Flokkarnir hafa fest sig í einni leið

Áætlað hefur verið að stærsti einstaki losunarþáttur koltvísýrings á Íslandi sé rotnandi mýrarjarðvegur í framræstu votlendi. Nær allir stjórnmálaflokkarnir sem náðu mönnum á þing lögðu áherslu á endurheimt votlendis sem loftslagsaðgerð, sérstaklega Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Píratar en þeir síðastnefndu stefna á að ljúka henni fyrir árið 2025.

Bjarni Diðrik segir leiðina hins vegar nýja og í þróun. Þó að hún hafi verið samþykkt á vettvangi loftslagssamningsins þá hafi íslensk stjórnvöld enn ekki ákveðið að nýta hana. Vísinda- og þekkingarlega sé aðgerðin réttlætanleg en hún krefjist flókinna rannsókna til að staðfesta árangurinn.

Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor í skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor í skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands.

„Það er enginn vafi að árangur verður þar sem aðstæður eru réttar en það þarf að byggja upp kostnaðarsamt kerfi til að tryggja að það sé hægt að sanna eftir á að hafi orðið sem er krafan ef stjórnvöld  færu út í þetta. Leiðbeiningar um hvernig slík eftirlitskerfi á að vera úr garði gert hafa verið gefnar út af Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna, en það er mjög yfirgripsmikið,“ segir hann.

Ef íslensk stjórnvöld ætla að ná þeim árangri sem þau hafa lofað með Kýótósamningnum og nú síðast með Parísarsamkomulaginu segir Bjarni Diðrik að ekki sé hægt að leysa vandamálið með einni leið. Stjórnmálaflokkarnir hafi einfaldað málið of mikið og fest sig í aðeins einni leið sem sé þar að auki sú eina sem sé ekki enn formlega hluti af loftslagsaðgerðum Íslands. Stóra lausnin felist ekki í bindingu kolefnis heldur í að draga úr losun.

„Það er ekki hægt að leysa vandamálið bara með endurheimt votlendis, það er ekki heldur hægt að leysa það bara með skógrækt og landgræðslu. Þetta eru svo metnaðarfull áform að stjórnvöld verða bæði að draga úr losuninni, sérstaklega skipta um orkugjafa bíla- og skipaflota landsins og takmarka losun frá stóriðju eins og kostur er, og jafnframt hvetja til þessara þriggja ólíku mótvægisaðgerða sem okkur standa til boða að nýta, sem eru endurheimt votlendis, skógrækt og landgræðsla, ef stjórnvöld eiga að geta staðið við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum,“ segir Bjarni Diðrik.

Geta notast við viðmið loftslagssamningsins

Hlynur Óskarsson, vistfræðingur við Landbúnaðarháskólann, segir aftur á móti að menn telji sig hafa góða hugmynd um umfang losunarinnar þó að vissulega væri æskilegt að gera fleiri rannsóknir. 

Hann telur hægt að nota leiðbeinandi reglur loftslagssamningsins eða svonefnda sjálfsgildisstuðla um losun frá framræstu landi til að áætla losun og árangur af endurheimt votlendis á Íslandi. Þeir byggist á rannsóknum í kaldtempraða beltinu og þær rannsóknir sem hafa verið gerðar hér á landi séu í nokkuð góðu samræmi við þær. Ekki sé ástæða til að telja að þær upplýsingar eigi ekki við hér á landi.

Hlynur Óskarsson, vistfræðingur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.
Hlynur Óskarsson, vistfræðingur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Nálgunin sé ef til vill ekki mjög nákvæm en hún hafi verið samþykkt af loftslagssamningnum. Hún sé hins vegar ekki minna skýr en viðmið fyrir skógrækt eða landgræðslu. Óvissan sé meiri um hversu mikið sé af framræstu landi á Íslandi en um hversu mikil losunin sé. Jafnvel þó að flatarmál framræsts lands væri helmingi minna væri losunin frá því stærsti einstaki losunarþátturinn.

Hlynur segir sjálfsagt mál að hefja endurheimt votlendis þó að hann vilji ekki rasa um ráð fram. Byggja þurfi upp innviði og reynslu í verkefninu. Þá bendir hann á að Ísland þurfi að gera meira til að draga úr losun í öllum sex losunarflokkum loftslagsbókhaldsins til loftslagssamningsins, þar á meðal í samgöngum, iðnaði og úrgangi.

Frétt Mbl.is: Batnar ekki með öðru verra

„Við eigum að vera með heiðarleg og trúverðug markmið í öllum þessum losunarflokkum, ekki bara að hoppa á einhvern vagn um endurheimt votlendis, skógrækt eða landgræðslu. Þetta vandamál er svo stórt að við verðum að taka á því á öllum vettvöngum samfélagsins, ekki bara fría okkur frá því að gera neitt í sambandi við bílinn með að moka ofan í skurði,“ segir Hlynur.

Þarf ekki að vera flókið að hefja endurheimt

Ekki er hægt að hefja umfangsmikla endurheimt votlends sem var ræst fram á áratugunum eftir seinni heimsstyrjöldina og fram á 8. áratuginn án töluverðs undirbúnings. Jón Guðmundsson, líffræðingur við Landbúnaðarháskólann sem hefur haldið utan um votlendismál gagnvart loftslagssamningnum, segir að áætlað hafi verið að um 4.000 ferkílómetrar framræsts votlendis séu á Íslandi. Þó að það sé líklega ofmat sé umfangið samt mikið.

Afla þyrfti samþykkis landeigenda og bænda til þess að hægt yrði að taka til við að moka ofan í skurðina og að líkindum að greiða þeim bætur í að minnsta kosti einhverjum tilfellum. Jón segir þó að aðeins um 12% þess landsvæðis sé í ræktun.

„Það er kannski ekki vitað hversu mikið er hægt að ráðast í fljótlega. Það er eitthvað sem þarf að gera því það liggur ekki fyrir út frá hvaða forsendum það yrði gert. Þetta er yfirleitt í landi sem er umráðasvæði einstakra bænda eða landeigenda. Þetta er byggt á skurðakerfi. Þú veður ekki bara og fyllir í einn skurð og endurheimtir þar með eitthvað svæði. Þetta þarf að vera nálgun í samræmi við hvernig skurðakerfið er uppbyggt. Þú verður að vinna samkvæmt landslaginu og helst í heildstæðum einingum,“ segir Jón.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri þar sem vísindamenn hafa rannsakað endurheimt votlendis.
Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri þar sem vísindamenn hafa rannsakað endurheimt votlendis. mbl.is/Þorkell

Þrátt fyrir það telur hann það ekki þurfa að vera flókið að hefja umfangsmikla votlendisendurheimt. Leita þurfi eftir samtali við bændur og landeigendur. Hann telur að skilningur sé á meðal þeirra að framræsla landsins hafi ekki endilega verið skynsamleg á sínum tíma. Hins vegar þurfi að greina hagsmuni þannig að ekki sé verið að eyðileggja afkomumöguleika þeirra.

„Þetta snýst um að stoppa sem mest af losuninni núna. Þarna er að losna mjög mikið á flatareiningu á hverju ári. Ef það er ekki mikill ávinningur af því að hafa landið svona ætti það að vera tiltölulega ódýrt. Þú ert ekki að missa mikið af tekjum eða efnahagslegum ávinningi með því að hafa þetta svona,“ segir Jón sem telur endurheimt votlendis geta verið með ódýrari loftslagsaðgerðum.

Líkt og kollegar hans Hlynur og Bjarni Diðrik segir Jón að aðgerðir til að endurheimta votlendi ættu ekki að stöðva aðgerðir til að draga úr losun á öðrum sviðum.

„Þetta á ekki að verða til þess að menn hendi öllu öðru frá sér. Það er mjög röng nálgun finnst mér þó að þarna sé tækifæri,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert