Tilefni til að skoða lög um heilbrigðisskrá

Þörf getur verið á að fara yfir lög um persónugreinanlegar heilbrigðisskrár embættis landslæknis að mati Persónuverndar. Á meðal þess sem hún telur mega skoða er hvort ástæða sé til að lögfesta andmælarétt sjúklinga vegna skráningar í slíkar heilbrigðisskrár.

Læknafélag Íslands óskaði eftir áliti Persónuverndar í tilefni af kröfu embættis landslæknis um að sérfræðilæknar sem reka stofur sendi embættinu persónugreinanlegar upplýsingar, meðal annars um sjúkdómsgreiningar sjúklinga. Upplýsingarnar áttu að fara í samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga.

Í erindi félagsins kom fram að lýta- og geðlæknar hafi sérstaklega lýst áhyggjum af þessari upplýsingaöflun. Í fjölmörgum tilfellum hafi sjúklingar bannað miðlun upplýsinga um sig til embættis landlæknis. Vildi félagið vita hvort tilgangur upplýsingaöflunarinnar fullnægi grunnreglum um málefnalegan tilgang og meðalhóf við vinnslu persónuupplýsinga og hvort læknum, sem hefðu fengið skýr fyrirmæli frá sjúklingum um annað, væri skylt að afhenda upplýsingarnar.

Embætti landslæknis sagði upplýsingaöflunina nauðsynlega til að fá yfirsýn yfir umfang heilbrigðisþjónustunnar og hvernig hún skiptist á milli þjónustuþátta. Án persónugreinanlegra upplýsinga af þessu tagi væri heldur ekki hægt að fylgja eftir sjúklingum sem færist á milli einkastofa til sjúkrahúsa og öfugt, meðal annars með tilliti til sýkinga í kjölfar aðgerða, aukaverkana og eftirlits með ísetningu íhluta.

Í áliti Persónuverndar kemur fram að það hvort að læknum sé skylt að afhenda upplýsingar um sjúklinga sína í andstöðu við vilja þeirra velti á því hvort lög sem mæli fyrir um að skylt sé að veita upplýsingarnar standist ákvæði stjórnarskrár. Persónuvernd tekur ekki afstöðu til þess þar sem það sé dómstóla að skera úr um það. Áréttar hún þó að virða beri andmæli við vinnslu persónuupplýsinga.

Þá segir í álitinu að í ljósi 71. greinar stjórnarskrárinnar sem kveður á um friðhelgi einkalífs fólks geti verið ástæða til að fara yfir löggjöf um persónugreinanlegar heilbrigðisskrár embættis landlæknis og meta hvort breytinga sé þörf. Meðal þess sem skoða mætti í því sambandi sé hvort ástæða sé til að lögfesta sérstakan andmælarétt í tengslum við þær skrár, sem og hversu víðtækur hann skuli þá vera, þar á meðal til hvaða upplýsinga og skráa hann taki.

Álit Persónuverndar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert