Markús svarar fyrir verðbréfin

Markús Sigurbjörnsson, forseti hæstaréttar, segist hafa fylgt lögum og reglum …
Markús Sigurbjörnsson, forseti hæstaréttar, segist hafa fylgt lögum og reglum um dómstóla varðandi hlutabréfa- og hlutdeildarskírteina eign sína. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, segir hlutabréf sem hann hafi átt í Glitni vera arf sem hann hafi fengið við andlát móður sinnar í febrúar 2002. Hann hafi á þeim tíma leitað leyfis nefndar um dómarastörf til að mega eignast bréfin og það hafi verið veitt tveimur dögum síðar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Markús sendi fjölmiðlum nú í morgun. Þar segir að honum hafi í febrúar 2002 fallið í skaut helmingshlutdeild í hlutabréfum sem foreldrar hans hafi átt í Eimskipafélagi Íslands, Flugleiðum og Íslandsbanka, sem síðar varð Glitnir. Markaðsverð hlutabréfanna hafi á þeim tíma verið um 23 miljónir króna.

Frétt mbl.is: 4 hæstaréttadómarar töpuðu á Glitni

Vegna starfa sinna sem dómari hafi sér lögum samkvæmt borið að leita leyfis nefndar um dómarastörf til að mega eignast bréfin.

„Með bréfi 18. febrúar 2002 leitaði ég leyfis nefndarinnar til að mega eiga hlut  að einkaskiptum á dánarbúi móður minnar, sem ætti þessi hlutabréf, og til að eignast við þau skipti hlutdeild í þeim og var leyfið veitt tveimur dögum síðar. Ég tilkynnti síðan nefndinni með bréfi 11. september 2003 að ég hefði selt hlutabréfin í Hf. Eimskipafélagi Íslands og Flugleiðum hf. og með bréfi 28. febrúar 2007 að ég hefði selt hlutabréfin í Glitni banka hf.“, segir í yfirlýsingunni.

Eftir sölu hlutabréfanna hafi hann síðan sett andvirði þeirra að stærstum hluta í eignastýringu hjá Glitni og því hafi m.a. verið ráðstafað til kaupa á hlutdeildarskírteini í ýmsum verðbréfasjóðum sem almenningi hafi staðið til boða.

„Hvorki átti ég lögum samkvæmt nr. 15/1998 né reglum nr. 463/2000 að tilkynna nefnd um dómarastörf um kaup á slíkum hlutdeildarskírteinum enda varð ég ekki með þeim eigandi að hlut í félagi. Það skal svo áréttað að lögum samkvæmt ber dómara að eigin frumkvæði að geta að hæfi sínu í sérhverju máli sem hann dæmir í. Það hef ég ávallt gert, þar á meðal í málum sem varðað hafa Glitni banka hf. eða fyrrverandi starfsmenn hans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert