Sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin rædd í dag

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir viðræður flokkanna fimm hafa gengið …
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir viðræður flokkanna fimm hafa gengið vel í gær. mbl.is/Hjörtur

Landbúnaðar- og sjávarútvegsmál verða að öllum líkindum meðal umræðuefna dagsins í óformlegum stjórnarmyndunarviðræðum forsvarsmanna Pírata, Viðreisnar, Bjartar framtíðar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar. Þetta segir  Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sem staðfestir að stefnt sé að því að á morgun liggi fyrir hvort það verði af formlegum stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna fimm.

Benedikt er nokkuð sáttur við viðræður flokkanna þessa vikuna.  „Sérstaklega í gær, þá gekk þetta ágætlega,“ segir hann og kveðst þó ekki vilja ganga svo langt að segja flokkana vera farna að nálgast hverja aðra. „En við erum að átta okkur á hverju þarf þá að lenda.  Það var nú það sem var kvartað undan síðast - að við hefðum ekki farið nógu langt í að reyna að skilgreina hvar skoðanamunurinn lægi. Þannig að við erum að reyna að gera það ítarlegar núna,“ segir Benedikt og bætir við að auðvitað sé líka skilgreint um hvaða mál flokkarnir séu sammála.  

Tekjumálin skoðuð á fundi gærdagsins

Til stendur að flokkarnir fundi síðdegis í dag, eftir að umræðum lýkur í þinginu. Benedikt segir líklegt að sjávarútvegs- og landbúnaðarmál verði  á dagskrá, en skattamálin, eða tekjumálin eins og Benedikt kýs að kalla þau, voru til skoðunar á fundi gærdagsins.

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að viðræður þróist yfir í formlegar stjórnarmyndunarviðræður segist hann ekki geta tjáð sig um það á þessum tímapunkti. „Ég get ekkert sagt fyrr en við erum búin að fara í gegnum þessa fundi, því þarna erum við að fara í gegnum mál sem vitað er að er munur á á milli flokkanna og þá kannski sérstaklega í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálunum,“ segir Benedikt. Komið hafi fram í síðustu viku að það sé ágætis samhljómur milli fjögurra flokkanna hvað þessi mál varðar, en að afstaða VG til málaflokkanna sé nokkuð önnur.

Í fyrri tveimur stjórnarmyndunarviðræðum sem efnt hefur verið til fóru formlegar viðræður fljótt af stað eftir að forseti veitti þeim Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, og Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG, umboð. Benedikt segist óstressaður yfir að óformlegar viðræður taki lengri tíma nú. „Eftir að þingstörfin byrjuðu, þá eru menn ekki jafn lausir og áður. Svo er kannski bara, líkt og ég sagði fyrir  síðustu helgi, betra að flýta sér hægt og vera þá komin að vitrænni niðurstöðu á hvorn veginn sem fer, því það mun þá væntanlega flýta fyrir framhaldinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert