Sviptingar í veðrinu á morgun

Grámyglan hverfur og snjórinn lýsir upp skammdegið á næstu dögum.
Grámyglan hverfur og snjórinn lýsir upp skammdegið á næstu dögum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Útlit er fyrir að dagurinn í dag verði síðasti grái dagurinn í bili á höfuðborgarsvæðinu í það minnsta. Veðurspár benda til þess að það kólni á morgun og él gætu fallið annað kvöld, samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands.

„Það verða breytingar á morgun, þá tekur kaldara loft við og annað kvöld verður kominn éljagangur hérna vestanmegin á landinu, þar með talið á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Hann segir að éljagangurinn muni halda áfram á mánudag og þá ætti jörð að vera orðin hvít. „Síðan kemur ein rigningarlægð í viðbót aðfaranótt þriðjudagsins en það hlýnar minna með henni en hefur gert í undanförnum lægðum. Það á enn eftir að ráðast hversu slæmu veðri hún á eftir að valda,“ segir Teitur.

Að því lægðaskoti loknu mun kalda loftið alfarið taka völdin, frá miðvikudeginum 21. desember. Öll úrkoma sem komi til með að falla frá þeim tíma og fram að jólum ætti að verða snjór, sem muni líklega haldast fram yfir jól. 

Spár gera ráð fyrir því að það snjói eitthvað á miðvikudag og fimmtudag sunnan- og vestanlands og norðan- og austanlands muni snjóa á Þorláksmessu. 

„Það gæti því orðið hvítt á öllu landinu um jólin,“ segir Teitur.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert