Hvorugur reykskynjarinn virkaði

Þessi hópur hefur staðið í ströngu í kvöld.Magn­dís Blöndahl Hall­dórs­dótt­ir …
Þessi hópur hefur staðið í ströngu í kvöld.Magn­dís Blöndahl Hall­dórs­dótt­ir frá LSH, Daní­el Freyr Þor­steins­son, Sig­ur­björn Guðmunds­son, Aron Orra­son og Haf­steinn Hall­dórs­son. mbl.is/Árni Sæberg

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út rúmlega 19 í kvöld vegna eldsvoða í kjallaraíbúð við Kirkjuteig. Um er að ræða Airbnb-íbúð og þar sem íbúðin er illa farin eftir eldsvoðann stóðu sex útlendingar á götunni á aðfangadagskvöld. Tveir reykskynjarar voru í íbúðinni en hvorugur þeirra virkaði.

Að sögn varðstjóra í slökkviliðinu buðu slökkviliðsmennirnir fólkinu með sér á slökkvistöðina í Skógarhlíð þar sem það dvaldi í góðu yfirlæti þangað til Rauði krossinn gat útvegað þeim gistingu á gistiheimili.

Aðspurður um reykskynjarana segir hann að annar þeirra hafi verið bilaður og engin rafhlaða í hinum.

Þegar slökkviliðið kom á vettvang höfðu nágrannar veitt fólkinu aðstoð og slökkt eldinn, sem var í eldhúsinnréttingu, að miklu leyti en mikill reykur var um alla íbúðina og hún mjög illa farin eftir reyk og eld.

Mikið álag hefur verið á slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í allt kvöld og eru sjö sjúkrabílar úti að sinna flutningum. Aðallega er um veikindi að ræða auk þess sem verið er að keyra fólk aftur á sjúkrahús sem fékk að fara heim í kvöld til þess að dvelja hjá ástvinum.

Frétt mbl.is: Alltaf útköll á jólavaktinni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert