Löng og erilsöm nótt hjá björgunarsveitinni

Um 24 manns tóku þátt í aðgerðum í nótt.
Um 24 manns tóku þátt í aðgerðum í nótt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu og fyrir austan fjall voru kallaðar út um miðnætti í gærkvöldi þegar veðrið var farið að versna töluvert uppi á Hellisheiði og í Þrengslunum til að hjálpa ökumönnum sem þar sátu fastir. Um 24 björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðum í nótt og var vaktin löng og erilsöm.

„Það var komið aftakaveður og skóf fljótt í skafla þannig að það þótti rétt að kalla út björgunarsveitir til að hjálpa fólki,“ segir Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Komu heim um níu í morgun 

Hann segir aðstæður hafa verið sérstaklega erfiðar í Kömbunum og í Þrengslum en þar varð tveggja bíla árekstur. Björgunarsveitin aðstoðaði farþegana við að koma sér sér niður af heiðinni og sinnti einnig bílum sem þar sátu fastir. Í nótt aðstoðaði björgunarsveitin Vegagerðina síðan við að færa til bíla á heiðinni til að auðvelda snjóruðning. „Það var búið að opna Hellisheiðina laust fyrir klukkan átta og Þrengslin upp úr hálfníu. Síðasta björgunarsveitarfólk var komið heim til sín upp úr níu í morgun,“ segir Þorsteinn.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni má búast við snjókomu á Hellisheiði, Lyngdalsheiði og Mosfellsheiði síðdegis og fram á kvöld, einnig á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku, en úrkoman breytist yfir í slyddu og síðan rigningu þegar líður á kvöldið.

Hálka og snjóþekja er víða á vegum á Suðurlandi og þungfært eða þæfingur er á nokkrum vegum í uppsveitum og útvegum. Flughálka er undir Eyjafjöllum og á Reynisfjalli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert