Sjö ókláruðum málverkum stolið

Mynd af Facebook

Málverkum eftir Karólínu Lárusdóttur var stolið um hátíðirnar úr geymslu listakonunar við Vatnsstíg í Reykjavík. Um er að ræða ókláruð verk. Karólína vann að verkunum áður en hún fékk heilablóðfall árið 2013 og hefur hún ekki getað unnið að þeim síðan.

Sonur Karólínu, Stephen William Lárus Stephen, segir að talið sé að innbrotið hafi átt sér stað á tímabilinu 23. - 28. desember. Húsvörðurinn í húsinu telji að það hafi verið framið annað hvort um kvöldið 27. desember eða um morguninni 28. desember. 

Stephen segir að ýmislegt annað verðmætt hafi verið í geymslunni en aðeins verk Karólínu hafi verið tekin. Þeir sem hafi verið að veki hafi greinilega haft það að markmiði að taka þessi verk enda hafi þau verið hulin. Málið beri allt þess merki að hafa verið vel skipulagt.

Ennfremur hafi verið unnar miklu meiri skemmdir á hurðinni en hafi þurft til þess að komast í gegnum hana. Svo virtist eins og þeir sem voru að verki hafi viljað láta líta út fyrir að um tilviljanakennt innbrot væri að ræða einhverra sem ekki þekktur til verka.

Stephen segir málið allt hið undarlegasta í ljósi þess að mjög erfitt sé væntanlega að koma verkunum í verð. Markaðurinn hér á landi sé lítill og auðvelt að bera kennsl á málverkin. Verkin séu ennfremur ókláruð og ómerkt. Hann vonar að niðurstaðan verði sú að þeir sem tóku málverkin skili þeim til baka. Skilji þau til að mynda eftir þar sem hægt sé að nálgast þau.

Stephen hvetur þá sem kunna að hafa einhverjar upplýsingar um málið að hafa samband við lögregluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert