VG geti sjálfum sér um kennt

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi alþingismaður.
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi alþingismaður. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Vinstri vængurinn, og þá einkum Vinstri-grænir, getur sjálfum sér um kennt að í burðarliðunum sé ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þetta segir Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni í kvöld enda hafi tilraunin til að mynda fimm flokka ríkisstjórn undir verkstjórn Pírata endað „á skeri VG“ að hans sögn.

„Það tækifæri hljóta margir að gráta beiskum tárum ekki síst í ljósi þess að sú ríkisstjórn hefði tekið við í góðæri og efnhagsvísar eru með þeim hætti að líklega hefði hún getað leiðrétt alvarlegar kompásskekkjur liðinna ára. Vinstri vængurinn undir forystu VG missti af gullnu tækifæri til að mynda ríkisstjórn sem hefði getað rétt hlut hópa sem sannanlega hafa legið hjá garði,“ segir Össur. Ysta vinstrið hafi glatað sögulegu tækifæri í þeim efnum.

Hvað lífslíkur fyrirhugaðrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar varðar segir Össur erfitt að reka ríkisstjórn á eins manns meirihluta. Það hafi hins vegar Viðreisnarstjórninni á sínum tíma tekist. Afdrif stjórnarinnar ráðist af því hvernig henni verði tekið strax í upphafi. „Fyrstu leiftur af stefnu hennar benda til að hún gæti komist klakklaust gegnum fæðingarhríðirnar og siglt vel fram að fyrstu fjárlögum.

Fjárlögin á næsta ári verði hins vegar prófsteinninn. „Stjórn með svo nauman meirihluta býr alltaf við þann háska að verða leiksoppur kjördæmapotara, og víst er að landsbyggðarþingmenn munu selja sig dýru verði strax í fyrstu fjárlögum.“ Fyrir vikið hljóti að koma til greina að taka fjórða flokkinn með í samstarfið. Stjórnin gæti líka reitt sig á stuðning einstakra flokka í ákveðnum málum. Gríðarlegur agi þyrfti að vera á stjórnarþingmönnum.

„Hörð og samstíga stjórnarandstaða getur ráðið miklu um langlífi nýrrar stjórnar. Eftir hið beiska skipbrot varðandi myndun miðju-vinstri stjórnar er ekki endilega víst að á þeim bæjum taki menn upp samræmt göngulag fornt í stjórnarandstöðu. Ný ríkisstjórn mun fá andrými meðan stjórnarandstaðan reynir að splæsa sig saman – sem alls ekki er víst að takist sérlega vel,“ segir Össur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert