Óhamingjusamari ungmenni í góðæri

Tekjuójöfnuður hefur áhrif á andlega heilsu ungmenna.
Tekjuójöfnuður hefur áhrif á andlega heilsu ungmenna. mbl.is/Ómar

Samkvæmt langtímarannsókn sem gerð var á árunum 2010 til 2012 jókst hamingja fólks í lægri félags- og efnahagsþrepum, en hamingja þeirra sem voru hærra settir dvínaði lítillega. Í upphafi rannsóknar var skýr munur á hamingju hópanna, þar sem sá tekjulægri var marktækt óhamingjusamari en hinn en svo dró saman með hópunum. Á sama tíma var tekjuójöfnuður að minnka hér á landi eftir að hafa náð áður óþekktum hæðum á hátindi góðærisins. 

Þetta kemur fram í nýrri langtímarannsókn sem Ragna Benedikta Garðarsdóttir, dósent í félagssálfræði við sálfræðideild Háskóla Íslands, kynnti á ráðstefnunni í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands í dag, í erindi sem nefnist hamingja og sjálfsmynd í neyslusamfélagi nútímans.

Tekjuójöfnuður ýtir undir óhamingju

Rannsóknin er með þeim fyrstu sem gerðar eru hér á landi þar sem sjónum er beint að tekjuójöfnuði og hamingju Íslendinga. Áhrif fátæktar og skorts á hamingju hafa talsvert verið rannsökuð en ekki áhrif tekjuójafnaðar á hamingju.

Við greiningu gagna komu fram tveir skýrir hópar með ólíka þróun í hamingju. Í hópnum sem mældist hamingjusamari voru einstaklingar sem voru líklegri til að vera með háskólamenntun, í sérfræðingsstöðu og með yfir meðaltekjur í laun. Í hinum hópnum voru þeir sem voru síður líklegir til að vera með háskólamenntun og í sérfræðingsstöðu og þeir voru líklegri til að vera með minna en meðaltekjur. Sá hópur var einnig með meiri efnishyggju og meira sjálfsmisræmi. Sjálfsmisræmi er þegar mikill munur er á því hvernig einstaklingur er og hvernig hann óskar sér að vera. „Þetta gefur til kynna að þessi hópur hafi upplifað stöðukvíða eða metorðakvíða,“ segir Ragna.

Þegar ójöfnuður minnkar og bilið milli þeirra ríkustu og þeirra fátækustu minnkar, verður félagslegur samanburður þessa hóps við aðra þjóðfélagshópa ekki jafnerfiður hlutfallslega, og það kann að auka hamingju hópsins.

Arndís Vilhjálmsdóttir og Ragna Benedikta Garðarsdóttir.
Arndís Vilhjálmsdóttir og Ragna Benedikta Garðarsdóttir. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Fyrsta rannsókn í heiminum á tengslum andlegrar heilsu, hverfa og tekna

Þessi rannsókn Rögnu á ójöfnuði er undanfari á doktorsrannsókn Arndísar Vilhjálmsdóttur, doktorsnema í sálfræði, á áhrifum mikils tekjuójafnaðar á andlega heilsu unglinga. Arndís, sem er doktorsnemi Rögnu, flutti samnefnt erindi á ráðstefnunni í dag.   

Í rannsókn Arndísar er prófað hvort tekjuójöfnuður innan hverfa hefði tengsl við kvíða og þunglyndiseinkenni meðal unglinga. Þessi rannsókn er meðal þeirra fyrstu í heiminum að skoða áhrif tekjuójafnaðar í hverfum á andlega heilsu ungs fólks.

Í rannsókninni kemur fram að eftir því sem tekjuójöfnuðurinn í hverfum eykst meira aukast kvíða- og þunglyndiseinkenni meðal ungmenna. Niðurstöður benda einnig til þess að andleg heilsa unglinga sé betri á tímum þegar tekjuójöfnuður er minni. Árið 2006 var tekjuójöfnuður mikill og andleg heilsa íslenskra unglinga verri en árið 2014. Það ár hafði tekjuójöfnuður ekki verið minni í um áratug. Tekjuójöfnuðurinn hefur verri áhrif á þá sem eru tekjulágir. Þeir unglingar sem tilheyra heimilum sem hafa minna á milli handanna, fara verr út úr því að búa í hverfi þar sem mikill ójöfnuður er, miðað við jafningja þeirra sem hafa meira á milli handanna. 

Of mikill tekjuójöfnuður skaðlegur 

„Þegar tekjuójöfnuður fer yfir ákveðinn þröskuld þá getur hann orðið skaðlegur. En upp að ákveðnum þröskuldi er ágætt að hafa tekjuójöfnuð því þá eru hagrænir hvatar til staðar. Eins og til dæmis hvati til að ná árangri og að vera félagslega hreyfanlegur í samfélaginu,“ segir Arndís.

Hún bendir á að samkvæmt þessum fyrstu niðurstöðum er hægt að segja að í þeim hverfum þar sem jöfnuðurinn er mikill er andleg heilsa unglinga betri. Arndís tekur fram að þetta eru fyrstu niðurstöður í þessari doktorsrannsókn og fleiri eru væntanlegar.    

Ekki verður greint frá hvernig andleg líðan unglinga skiptist milli hverfa á landinu, að sögn Arndísar.

mbl.is/Eggert

Lítil stéttaskipting og lítill breytileiki á heilbrigðiskerfinu

Lítill breytileiki er á heilbrigðiskerfinu milli hverfa og lítil stéttaskipting er hér á landi miðað við víða erlendis. Í samhengi við skarpa aukningu í tekjuójöfnuði á árunum upp að efnahagslega samdrættinum árið 2008, og síðan jafna og þétta minnkun hans árunum eftir hrun, býður þetta upp á tækifæri til að reyna að einangra sálræn áhrif tekjuójafnaðar á andlega heilsu, segir Arndís. Áhrif tekjudreifingar á heilsu Íslendinga hafa ekki mikið verið rannsökuð hér á landi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert