Vill að Benedikt boði Bjarna á fund efnahagsnefndar

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, fer fram á að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, boði Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, en Benedikt er formaður nefndarinnar, á meðan Bjarni sé enn fjármálaráðherra, því hann þurfi að svara fyrir aflandsfélagaskýrsluna.

Þetta kemur fram í færslu sem Birgitta hefur birt á Facebook.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. mbl.is/Styrmir Kári

„Um leið og ég óska Dac [vísun í listabókstafi Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar]  til hamingju með myndun ríkisstjórnar þá fer ég fram á að Benedikt boði Bjarna á fund efnahags og viðskiptanefndar á meðan Bjarni er enn fjármálaráðherra. Bjarni Þarf að svara fyrir málið með aflandsfélagaskýrsluna á meðan hann er enn í fjármálaráðuneytinu,“ skrifar Birgitta.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Styrmir Kari

Í annarri færslu spyr Birgitta hvað fólki þyki almennt um það að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórnir. Hún bendir á að þær séu ávallt felldar á þinginu, því slíkt þurfi samþykki meirihluta þingsins. „Er nóg að ég lýsi yfir vantrausti á væntanlegan forsætis á facebook? Í gær skoraði ég á Óttarr að snúa af þeirri braut að réttlæta fúskið sem hann hefur einatt talað um að sér finnist ólíðandi og ekki í anda þeirra stjórnmála sem hann vildi stunda. Nú bera 58 aðrir BF aðilar samábyrgð með honum og kannski alveg komin tími á að hætta að vera fúl við hann einan. EN ég skil ekki alveg af hverju BF varð að fylgitungli Viðreisnar. Hefði verið íkornalegt ef hann hefði sagt kjósendum sínum að það stæði til eftir kosningar að mynda slíkt bandalag,“ skrifar hún og heldur svo áfram: „Svo finnst finnst það algert fúsk hjá honum að kalla lygar klaufaskap. Ég vona að þau nái einhverjum alvöru málum í gegn, það geri ég heilshugar. En þau verða að gera sér grein fyrir því að það verður öflug andstaða við allt fúsk!“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert