Miklar skemmdir í eldsvoða við Smiðjuveg

Allt tiltækt lið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kallað að Smiðjuvegi í nótt eftir að eldur kom upp í verslunarhúsnæði. Rýma þurfti íbúðir í enda hússins, þar sem 12-15 manns dvöldu.

Slökkviliðinu barst tilkynning um eldinn frá öryggisverði um kl. 1.30. Var allt lið sent á staðinn. Um töluverðan eldsvoða var að ræða og var aukamannskapur kallaður til.

Það tók slökkviliðið um þrjá tíma að ráða niðurlögum eldsins, sem reyndist í þaki eða millilofti í tveimur verslunum í lengjunni, en vakt var á staðnum í rúma klukkustund þar á eftir.

Samkvæmt upplýsingum gekk slökkvistarf vel en var mikil vinna. Reykur komst inn í fleiri verslanir í kjarnanum og skemmdir eru taldar miklar.

Sem fyrr segir þurfti að rýma íbúðir í enda húsnæðisins og mætti Rauði krossinn á staðinn til að hlúa að íbúum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert