Fínleit haldið áfram við Hafnarfjarðarhöfn

Björgunarsveitarmenn í fínleit á þeim slóðum sem skórinn, sem eignaður …
Björgunarsveitarmenn í fínleit á þeim slóðum sem skórinn, sem eignaður hefur verið Birnu, fannst. mbl.is/Eggert

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar munu halda áfram fínleit við Hafnarfjarðarhöfn í kvöld, í leit að vísbendingum sem geta aðstoðað við leitina að Birnu Brjánsdóttur, sem ekkert hefur til spurst frá því aðfaranótt laugardags.

„Þetta er það sem við köllum fínleit,“ segir Ingólfur Haraldsson hjá svæðisstjórn björgunarsveitanna. „Við vorum kölluð hingað út í dag til að leita aftur, til að fara í nákvæmari leit á svæðinu þar sem skórnir fundust.“ Greint var frá því á mánudag að svartir Doctor Martens-skór sem taldir eru tilheyra Birnu hefðu fundist í grjótgarði við höfnina.

Um 30 manns hafa verið við ítarlega leit á því svæði í dag. Stutt hlé var gert um kvöldmatarleytið, en þegar mbl.is leit við í aðgerðarstöð björgunarsveitanna í Hafnarfirði var þar staddur fjölmennur hópur á leið út á nýjan leik. Um 20 manns höfðu bæst við hópinn og má því gera ráð fyrir að um 50 manns verði við leit á svæðinu í kvöld.

Lýst ofan í hverja gjótu

 „Þetta er mjög tímafrekt, því þó að svæðið sé þannig séð frekar lítið þá er þetta samt stórt svæði miðað við fínleit,“ segir Ingólfur og útskýrir að við fínleit sé lýst ofan í hverja holu og hver einasta gjóta skoðuð. Hann segir leit björgunarsveitanna á svæðinu í dag ekki hafa leitt neitt í ljós sem sé tilefni til að skoða frekar.

„Við erum búin að skilgreina ákveðin verkefni þarna í kring og þegar við erum búin að því, þá segjum við þetta vera orðið gott í kvöld.“

Kafarar landhelgisgæslunnar og slökkviliðs, sem voru að kafa í nágrenni flotkvíar í Hafnarfjarðarhöfn í allan dag og fram á kvöld, hættu hins vegar störfum um sjöleytið.

Björgunarsveitir eru þá enn með leit í gangi meðfram vegaslóðum sem liggja í átt að Keili, en sú leit er nú langt komin að sögn Ingólfs. „Það er leit með hundum þar,“ segir hann og bætir við að sú leit hafi enn ekki leitt neitt í ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert