Hvetur Grænlendinga til að aðstoða lögreglu

Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn. Grænlensk stjórnvöld fylgjast grannt með gangi …
Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn. Grænlensk stjórnvöld fylgjast grannt með gangi mála. mbl.is/Árni Sæberg

Grænlensk stjórnvöld fylgjast náið með rannsókninni á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, sem ekkert hefur spurst til frá því aðfaranótt laugardags. Þetta segir Vittus Qujaukitsoq, ráðherra utanríkismála, iðnaðar, atvinnu, viðskipta og orkumála á Grænlandi. Skrifstofa ráðherrans hefur verið í sambandi við íslenska utanríkisráðuneytið frá því í gær.

Greint var frá því í kvöld að þrír úr áhöfn grænlenska togarans Polar Nanoq hefðu verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins. Skipið lagðist að bryggju á ný í Hafnarfjarðarhöfn nú á tólfta tímanum í kvöld, eftir að hafa verið snúið við á leið sinni til Grænlands í gær.

„Fréttirnar af Birnu Brjánsdóttur sem hvarf á laugardagsmorgun valda mér miklum áhyggjum – og ég hef nú frétt að þrír grænlenskir ríkisborgarar hafi verið handteknir í tengslum við rannsóknina,“ segir Qujaukitsoq í skriflegu svari til mbl.is.

„Þetta er alvarleg staða og ég sjálfur, ríkisstjórn Grænlands og grænlenskur almenningur fylgjumst grannt með málinu.

Grænlensk stjórnvöld eru reiðubúin að veita alla þá aðstoð sem þau geta við rannsóknina,“ sagði Qujaukitsoq. Hann segir það enn fremur vera sinn skilning að eigandi skipsins hafi til þessa verið samstarfsfús við íslensk lögregluyfirvöld.

„Ég vil hvetja alla grænlenska ríkisborgara til að veita þær upplýsingar sem þeir geta og aðstoða íslensk yfirvöld til að tryggja að allar upplýsingar um horfnu stúlkuna séu veittar.

Utanríkisskrifstofa mín hefur verið í beinu sambandi við íslenska utanríkisráðuneytið frá því í gær til að veita alla þá aðstoð sem við getum í þessu máli. Ég vona innilega að rannsóknin leiði til þess að Birna Brjánsdóttir finnist fljótt,“ sagði í svari Qujaukitsoq.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert