12 stiga frost á Patreksfirði

Það er kalt í veðri á landinu þennan morguninn.
Það er kalt í veðri á landinu þennan morguninn. Af vef Veðurstofu Íslands.

Spáð er hæglætisveðri og talsverðu frosti, en dregur smám saman úr frosti í dag. Vaxandi austanátt með snjókomu sunnan til á landinu undir hádegi, en þykknar upp norðan til. Samkvæmt korti á vef Veðurstofunnar verður 12 stiga frost á Patreksfirði klukkan sjö og mjög kalt inn til landsins. Í Reykjavík er spáð 5 stiga frosti klukkan 7 og átta stiga frosti á Akureyri og Egilsstöðum á sama tíma.

Suðlægari í kvöld og rigning eða slydda sunnanlands og hiti 0 til 5 stig, en dálítil snjómugga fyrir norðan og vægt frost. Hlýnar enn frekar á morgun í sunnanátt. Rigning og súld sunnan og vestan til, en þurrt að mestu um landið norðaustanvert. Hiti 3 til 8 stig síðdegis, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Fremur hæg breytileg átt og talsvert frost, skýjað með köflum eða léttskýjað. Gengur í austan 8-15 með snjókomu sunnan til á landinu um hádegi, en þykknar upp fyrir norðan og dregur úr frosti. Suðaustan 5-13 í kvöld og rigning eða slydda sunnan til og hlánar, en dálítil snjókoma norðan til. Suðaustan 8-15 á morgun og súld eða rigning sunnan og vestan til, en heldur hægari og þurrt að mestu um landið norðaustanvert. Hlýnandi veður, hiti 3 til 8 stig síðdegis.

Á föstudag:

Sunnan og suðaustan 8-15 m/s. Súld eða rigning, en þurrt á NA-verðu landinu. Hlýnandi veður, hiti víða 3 til 8 stig síðdegis.

Á laugardag:
Sunnan og síðar suðvestan 8-15 og rigning eða slydda og hiti 0 til 5 stig. Hægari vindur og úrkomulítið NA-til og hiti kringum frostmark.

Á sunnudag:
Breytileg átt og sums staðar dálítil él, hiti kringum frostmark. Vaxandi suðaustanátt síðdegis, slydda eða snjókoma á S- og V-landi um kvöldið, en rigning við ströndina.

Á mánudag:
Hvöss sunnanátt og vætusamt, einkum S- og V-lands. Milt veður.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir suðlæga átt, slydda eða rigning og heldur kólnandi veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert