Bíður næstu skrefa lögreglu

Lögregla mætir með skipverjana í Héraðsdóm Reykjaness. Þeir hafa nú …
Lögregla mætir með skipverjana í Héraðsdóm Reykjaness. Þeir hafa nú verið úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald. mbl.is/Eggert

„Eftir gæsluvarðhaldsúrskurðinn hef ég ekkert nýtt heyrt,“ segir Unn­steinn Örn Elvars­son héraðsdóms­lögmaður. Unnsteinn er verjandi eins skipverja grænlenska togaranum Polar Nanoq, sem var handtekinn í gær í tengslum við leitina að Birnu Brjánsdóttur, sem ekkert hefur spurst til frá því aðfaranótt sunnudag.

Skjólstæðingur Unnsteins og annar skipverji Polar Nanoq voru í dag úrskurðir í tveggja vikna gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness.

Unnsteinn var viðstaddur yfirheyrslur yfir skjólstæðingi sínum í nótt og fóru þær fram á ensku og dönsku. Hann segir grænlenskan túlk síðan hafa verið viðstaddan er gæsluvarhaldsúrskurðurinn var kveðinn upp.

Spurður hvort hann viti hvort eða hvenær standi til að yfirheyra mennina næst segir hann: „Ég hef ekki fengið neinar fréttir af því hvenær frekari yfirheyrslur verði og ég er að bíða eftir næstu skrefum hjá lögreglunni,“ segir hann og vísar á lögreglu með frekari fyrirspurnir.

Unnsteinn kveðst þó hafa reynt að hafa milligöngu um að koma upplýsingum um skjólstæðing sinn til fjölskyldu hans á Grænlandi. Hann telur þau ekki hafa fengið miklar fréttir af honum. „En ég veit þó að það hafa verið samskipti við þau í gegnum sendiráðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert