Funda um myndavélar í miðbænum

Stuðst hefur verið við gögn úr öryggismyndavélum í miðbæ Reykjavíkur …
Stuðst hefur verið við gögn úr öryggismyndavélum í miðbæ Reykjavíkur og við Hafnarfjarðarhöfn, auk myndavéla hjá fjölda fyrirtækja, við rannsókn málsins. mbl.is/Eggert

Í heildina eru nítján eftirlitsmyndavélar í miðbænum sem lögreglan hefur beinan aðgang að og eru flestar orðnar fimm ára gamlar. Lög­reglan á höfuðborg­ar­svæðinu, Neyðarlín­an og fulltrúar frá Reykjavíkurborg funda eftir helgi um stöðu eftirlitsmyndavéla í miðbænum, samkvæmt heimildum mbl.is.

Á blaðamannafundi á mánudag kom fram að lögregla hefði ekki getað greint skráningarnúmer rauða Kia Rio bílsins vegna lítilla gæða eftirlitsmyndavéla á Laugavegi. 

„Þessar myndavélar eru nógu fullkomnar en þegar þú tekur myndir að nóttu til þá ertu með allt aðrar græjur en að degi til og þú getur aldrei stillt vélar þannig að þær harmóneri fyrir allt saman,“ sagði Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar. 

Þórhallur sagði að frá því í nóvember hafi staðið til að skipta út þremur myndavélum og Neyðarlínan eigi sex á lager. 

Hvarf Birnu vekur upp umræðu

Í sam­komu­lagi um rekst­ur og viðhald eft­ir­lits­mynda­vél­anna milli lög­reglu­stjór­ans á höfuðborg­ar­svæðinu, Neyðarlín­unn­ar og Reykja­vík­ur­borg­ar árið 2012 var samþykkt að kaupa tólf eft­ir­lits­mynda­vél­ar til nota í miðborg­inni. 

„Þetta var gott mál á sínum tíma og kannski er kominn tími til að fjölga og endurnýja,“sagði Björn Blöndal, formaður borgarráðs. „Þetta er umræða sem fer af stað núna í tengslum við málið, það er alveg klárt. Þetta er ekki einfalt en eins og lögreglan hefur bent á þá er öryggisgildið heilmikið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert