Nýjar myndbandsupptökur hafa komið fram

Skjáskot úr myndbandi sem lögregla Birti á mánudag. Lögreglu hefur …
Skjáskot úr myndbandi sem lögregla Birti á mánudag. Lögreglu hefur borist myndbönd síðasta sólarhring sem gagnast við rannsókn málsins.

Nýjar myndbandsupptökur hafa komið fram undanfarinn sólarhring sem gagnast við rannsókn á hvarfi Birnu Brjánsdóttur. Búið er að leggja hald á síma og tölvur hinna grunuðu í málinu. Lögreglan einbeitir sér nú að því að fara aftur yfir þau gögn sem lögregla hefur undir höndum. Ekki síst myndbandsupptökur. 

„Það er rétt að taka það fram að þegar við fáum myndbandsefni þá þarf að skoða það aftur og aftur og stundum þurfum við að fá aðra til að skoða það. Eins að taka það fram að myndbandsefnið er oft ekki greinilegt og því þarf að kalla til hóp fólks til að rýna í efnið til að átta sig á því hvað það er að segja okkur,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.  

Hann vill ekki tjá sig um það hvort myndböndin séu úr Reykjavík eða Hafnarfirði, en eins og fram hefur komið sást Birna síðast á Laugavegi í Reykjavík á sama tíma og rauð Kia Rio-bifreið. Síðar sama kvöld sást ökutækið á myndbandsupptökum við höfnina í Hafnarfirði og við golfklúbb GKG. 

Búið að leggja hald á síma og tölvur  

„Við handtöku þá haldlögðum við slík gögn (tölvur og síma),“ segir Grímur. Spurður hvort búið sé að fara yfir færslur bankakorta þá segir Grímur: „Við erum að kanna allar tegundir sönnunargagna sem geta nýst okkur við þessa rannsókn,“ segir Grímur.  

Grímur segir að nýju myndböndin séu fleiri en eitt. Lögreglan hafi verið að fá upplýsingar frá fólki sem og fyrirtækjum í allan dag. Að sögn Gríms hefur ekki komið fram ný tegund sönnunargagna það sem af er degi en sífellt berist nýjar vísbendingar sem lögreglan sé að fara yfir.  

Birna Brjánsdóttir sást síðast á eftirlitsmyndavél á Laugavegi að morgni …
Birna Brjánsdóttir sást síðast á eftirlitsmyndavél á Laugavegi að morgni laugardagsins 14. janúar. Á sama tíma sást rauður bíll, líklega af gerðinni Kia Rio, á veginum. Myndir/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert