Oft veltir lítil húfa þungu hlassi

Bleik ábreiða. Mæti þorri göngufólks til leiks með bleikar húfur …
Bleik ábreiða. Mæti þorri göngufólks til leiks með bleikar húfur gæti garðurinn litið svona út ofan frá séð.

Pussyhat Project, eða „pussuhúfu-verkefnið“, sem bandarískar vinkonur hófu fyrir tveimur mánuðum hefur undið svo upp á sig að bleikt garn er nánast uppselt í verslunum vestanhafs.

Sjálfboðaliðar hafa staðið í ströngu við að prjóna bleikar húfur með kattareyrum á þátttakendur í kvennagöngunni Women' March í Washington D.C. á laugardaginn – daginn eftir innsetningu Donald Trumps í embætti forseta Bandaríkjanna. Tilviljun?

What's new, Pussycat?
Whoa, whoa
What's new, Pussycat?
Whoa, whoa

Pussycat, Pussycat, I've got flowers
And lots of hours
To spend with you.
So go and powder your cute little pussycat nose!

Svona söng Tom Jones við miklar vinsældir á sjöunda áratug liðinnar aldar til kisulórunnar sinnar, sem vel að merkja var ábyggilega kona en ekki köttur. Textinn er á ábyrgð Hal David. Á www.snara.is segir að fyrra atkvæði enska orðsins þýði pussa og sé óviðurkvæmilegt orð yfir kvensköp. Undir þá skoðun sem og niðrandi notkun orðsins um konur hefðu þær Krista Suh og Jayna Zweiman trúlega tekið áður en þær hrintu af stokkunum sérstöku prjónaátaki, The Pussyhat Project, í þágu fyrirhugaðrar kvennagöngu, Women's March, og baráttufundar fyrir mannréttindum í National Mall-almenningsgarðinum í Washington D.C. En kannski ekki lengur. Þær hafa nefnilega snúið vörn í sókn.

Skipuleggjendur búast við 200 þúsund manns í gönguna, sem verður farin n.k laugardag 21. janúar, daginn eftir innsetningarathöfn Donalds Trumps í embætti forseta Bandaríkjanna.

Ef vonir þeirra Suh og Zweiman ganga eftir verða þátttakendur meira en ein milljón og bleikar prjónahúfur á flestum kollum. Ofan frá séð eins og bleik ábreiða yfir garðinn, ímynda þær sér.

Áhrifavaldurinn Donald Trump

Þær hleyptu verkefninu af stokkunum á Facebook fyrir tveimur mánuðum og biðluðu til fólks um allan heim að prjóna bleikar „pussuhúfur“ handa göngufólkinu. Á vefsíðunni, www.pussyhatproject.com, segjast þær leika sér að því að snúa út úr orðinu „pussycat“ enda vilji þær að orðið „pussy“ fái valdeflandi merkingu. Svo fara þær nokkrum orðum um að konur séu misrétti beittar í bandarísku samfélagi, lausnin sé ekki að afmá kvenleikann, konur eigi líkama sína sjálfar og þar fram eftir götunum.

Nafngiftin á að hluta til rætur í ummælum Donald Trumps sem náðust á myndband árið 2005 og fengu hárin til að rísa á mörgum þegar það var dregið fram í dagsljósið í kosningabaráttunni. Hljóð og mynd fór algjörlega saman og allar tilraunir forsetaframbjóðandans til að afneita ummælum sínum voru dæmdar til að mistakast. „Þegar maður er stjarna leyfa þær mann að gera það. Gríptu um pussuna á þeim. Maður getur gert allt,“ sagði verðandi forseti Bandaríkjanna eins og hver annar drýldinn dónakall.

Í viðtali í Los Angeles Times segist Suh taka sumpart þátt í göngunni til að mótmæla forsetakjöri Trumps. „Ég vildi gera meira en bara mæta og spurði sjálfa mig hvernig ég gæti með sjónrænum hætti vakið athygli á því sem er að gerast. Ég áttaði mig líka á að Kaliforníustúlku eins og mér yrði virkilega kalt í Washington D.C., þar sem ekki er hlýrabolsveður árið um kring. Svo mér datt í hug að prjóna mér húfu,“ sagði hún.

Suh fékk til liðs við sig fyrrnefnda Zweiman og fleiri vinkonur sínar. Þær hvöttu landa sína og fólk hvarvetna í heiminum til að gerast sjálfboðaliðar og prjóna, hekla eða sauma bleikar húfur með kattareyrum í þúsundavís á baráttufólkið. Auk Facebook-síðunnar settu þær í loftið vefsíðu með prjónauppskriftum, skilmerkilegum upplýsingum um markmið verkefnisins og leiðbeiningum um hvernig prjónafólkið ætti að bera sig að til að bleiku húfurnar kæmust á leiðarenda og höfnuðu örugglega á réttum kollum.

Viðtökurnar fóru fram úr þeirra björtustu vonum, heimspressan tók við sér og hafa þær stöllur verið í viðtölum um framtakið í fjölmiðlum beggja vegna hafs. Gera má því skóna að fyrir vikið hafi baráttugangan fengið meiri umfjöllun en ella. „Verkefnið snýst um að búa til „hafsjó“ af bleikum húfum og senda með þeim út sterka sameiginlega yfirlýsingu. Því er líka ætlað að gefa þeim sem ekki geta mætt á staðinn en vilja styðja baráttuna tækifæri til að leggja málstaðnum lið,“ sagði Zweiman í viðtali við breska blaðið, The Guardian.

Kjaftaklúbbar?

Fréttir herma að verslanir vestra séu að verða uppiskroppa með öll litbrigði af bleiku prjónagarni og dæmi eru um að áhugasamur almenningur hafi stofnað vefsíður með eigin uppskriftum af húfum með kattareyrum. Uppskriftin á vefsíðu verkefnisins gæti vart verið einfaldari; prjónað er eitt stykki af tiltekinni stærð, sem síðan er brotið saman og saumað saman á hliðunum.

Með tiltækinu vilja þær Suh og Zweiman líka hefja hannyrðir kvenna til vegs og virðingar. „Prjón og hekl eru hefðbundnar kvennahannyrðir. Stundum er skopast að prjóna- og saumaklúbbum, þeir léttvægir fundnir og kallaðir „kjaftaklúbbar“. Í rauninni eru þeir áhrifamiklar samkomur og öruggt umhverfi þar sem konur tala saman og styðja hver aðra. Allt handverk speglar umhyggju. Okkur er umhugað um kvenréttindi og finnst við hæfi að handverk sem á rætur í þekkingu sem gengið hefur frá kynslóð til kynslóðar sé tákn göngunnar,“ segja þær.

Og hafi einhverjir efasemdir um bleika litinn, sem sumum gengur illa að hætta að tengja við hina brothættu og smáfættu Barbie brúðu, hafa vinkonurnar svörin á reiðum höndum: „Bleikur litur er talinn afar kvenlegur litur, tákn umhyggju, samúðar og ástar – eiginleika sem kallaðir hafa verið veikleikar, en eru þvert á móti styrkleiki. Með því að klæðast allar bleiku lýsum við því yfir að við skömmumst okkar ekkert fyrir kvenleikann og stöndum keikar fyrir réttindum kvenna.“

Ef að líkum lætur verða bleikar húfur áberandi í kvennagöngunni.
Ef að líkum lætur verða bleikar húfur áberandi í kvennagöngunni. Af Facebook-síðunni Pussyhat Project
Borið hefur á skorti á bleiku prjónagarni vestanhafs síðustu dagana.
Borið hefur á skorti á bleiku prjónagarni vestanhafs síðustu dagana.
Á vefsíðu verkefnisins er uppskrift af húfu með kattareyrum.
Á vefsíðu verkefnisins er uppskrift af húfu með kattareyrum.
Forsprakkar prjónaátaksins Pussyhat Project léku sér að því að snúa …
Forsprakkar prjónaátaksins Pussyhat Project léku sér að því að snúa út úr orðinu Pussycat – kisulóra.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert