Skoða að fá aðstoð annars staðar af landinu

Hundar hafa verið notaði við leitina að Birnu Brjánsdóttur á …
Hundar hafa verið notaði við leitina að Birnu Brjánsdóttur á Strandarheiði í dag. mbl.is/Ófeigur

Engir leitarhópar eru úti nú í kvöld á vegum björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar við leit að Birnu Brjánsdóttur, sem ekkert hefur til spurst frá því aðfaranótt laugardags. „Núna erum við með smá verkefni í gangi sem klárast í kvöld og á morgun tökum við stöðuna aftur,“ segir Hjálmar Örn Guðmarsson, sem er í svæðisstjórn björgunarsveita höfuðborgarsvæðisins.

Spurður hvaða verkefni það séu segir hann: „Við erum í ákveðinni rannsóknarvinnu. Við erum að kanna ákveðna hluti sem við getum ekki farið nánar út í að svo stöddu.“

Um 30 björgunarsveitarmenn hafa verið við leit á Strandarheiði í dag og hafa þá verið að fara aftur yfir viss svæði og endurskoða þar með vísbendingar sem búið er að vinna eftir. Sú leit skilaði engum árangri að sögn Hjálmars.

Skoða Strandarheiðina aftur ef veðuraðstæður breytast

„Við teljum okkur vera búna að fara nokkuð ítarlega yfir þau svæði, en við komum örugglega til með að skoða þau aftur ef veðuraðstæður og færð breytist,“ segir hann og bætir við að með því vilji menn taka af allan þar sem erfitt sé að leita þegar snjór er yfir öllu.

Víðavangshundar voru notaðir við leitina í dag og segir Hjálmar þá hafa sýnt takmörkuð viðbrögð. „Þeir meta hvort manneskja er, eða hefur verið, á svæðinu.“ Snjóflóðahundar voru notaðir við leitina á Keilissvæðinu í gær.

Björgunarsveitarfólk gengur fjöruna við Hafnarfjarðarhöfn.
Björgunarsveitarfólk gengur fjöruna við Hafnarfjarðarhöfn. mbl.is/Eggert

Leitaraðgerðum var hætt er dimma tók og enn liggur ekkert fyrir varðandi leit á morgun. „Við eigum eftir að taka ákvörðun um það í kvöld,“ segir Hjálmar og segir að í kvöld og á morgun verði leitaraðgerðir helgarinnar skipulagðar.

Búin að keyra mannskapinn hart síðustu daga

„Við erum búin að vera að keyra mannskapinn gríðarlega hart síðustu daga, þannig að nú erum við að meta stöðuna í heild sinni og munum meðal annars skoða á morgun hvort við eigum að óska eftir aðstoð frá björgunarsveitum annars staðar að á landinu um helgina.“

Hjálmar segir björgunarsveitir vera undanfarna daga búnar að bregðast við og tryggja að farið sé yfir allar vísbendingar sem henni berast. „Við erum að vinna í sameiningu út frá þeim upplýsingum sem við fáum frá lögreglunni, en sameiginlegt markmið er að finna stúlkuna. Það er okkar lykilhlutverk núna á næstu dögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert