„Við þurfum öll að vakna!“

Ögmundur Jónasson gagnrýnir harðlega pukur í viðræðum um alþjóðlega viðskiptasamninga, …
Ögmundur Jónasson gagnrýnir harðlega pukur í viðræðum um alþjóðlega viðskiptasamninga, sem gætu haft afdrifaríkar afleiðingar. Árni Sæberg

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, gagnrýnir harðlega að viðræður um alþjóðlega viðskiptasamninga skuli fara fram bak við lukt tjöld og segir að gæti menn ekki að sér gæti það verið að binda hendur okkar langt inn í framtíðina í grundvallarmálum. Ögmundur er farinn af þingi, en í viðtali við Orra Pál Ormarsson í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins kveðst hann síður en svo hættur í pólitík. Hann segist vilja vekja fólk til vitundar um hitamál og í þeim efnum horfi hann „út á hinn pólitíska akur, ekki bara á þingið og einstaka flokka þar“ og bætir við: „Við þurfum öll að að vakna!“

Ögmundur hélt fyrir viku fund í Iðnó um alþjóðlegu viðskiptasamningana. Þeir skipta okkur grundvallarmáli og geta bundið hendur okkar langt inn í framtíðina ef við gætum ekki að. Þess vegna hafa aðstandendur samninganna sem ganga undir skammstöfunum sem fæstir kunna skil á, GATS, TISA; TTIP og svo framvegis, reynt að halda viðræðum um þá á bak við lukt tjöld. En um leið og upplýst er hvað þar fer fram gjósa upp gríðarleg mótmæli. Sem betur fer er til í heiminum fólk sem heldur vöku sinni. Fyrir mér vakir að fjölga í þeim hópi.“

Greiða götu heimsauðvaldsins

– Hvernig ferðu að því?
„Grundvallaratriði er að sem flestir hafi skilning á þessum málum. Þótt andmælendur viðskiptasamninganna séu flestir á vinstri væng stjórnmálanna þá er ég þeirrar skoðunar að í afstöðu til þeirra eigi ekki að liggja landamærin á milli markaðssinna og samvinnumanna; með öðrum orðum, á milli hægri og vinstri. Menn geta verið markaðssinnaðir hægri menn án þess að vilja draga taum stórfyrirtækja og greiða götu heimsauðvaldsins að innviðum samfélaganna. Nákvæmlega þetta gera þessir samningar. Það er markmiðið með þeim.“

– Útskýrðu þetta nánar!

„Staðreyndin er sú að stórfyrirtæki sem mörg starfa á heimsvísu vilja ná tökum á auðlindum og grunnþjónustu – innviðunum sem títt er talað um þessa dagana. Takist þeim þetta hefur hugtakið auðvald öðlast eiginlegt inntak og merkingu við hæfi. Þetta snýst nefnilega um það hvar valdið eigi að liggja, hjá okkur, fólkinu, samfélaginu eða fjármagninu. Ég hefði haldið að markaðssinnuðum hægri mönnum væri lítið um þessa þróun á sviði viðskiptasamninga gefið ef þeir á annað borð leggja upp úr því að lýðræði sé í hávegum haft. En einmitt það vilja þeir margir mjög eindregið.

Það breytir því ekki að átökin um þessa samninga eru pólitísk í eðli sínu – og í þeirri pólitík kemur hægri og vinstri svo sannarlega við sögu. En fyrst svo er, þá er eðlilegt að spyrja hvort ekki þurfi að ræða þá pólitík. Varla viljum við innleiða pólitíska stefnu án þess að hún sé rædd! En sá hefur einmitt verið vandinn að ríkin sem standa að þessum samningum hafa reynt að fara leynt með þá og aðeins látið eitthvað uppskátt að þeim hafi nánast verið þröngvað til þess. Þessu verður að breyta!

Annars virðist nú hafa skapast ákveðið svigrúm til að staldra við þótt ég óttist að það verði ekki lengi. Þetta er vegna útspils Donalds Trumps, verðandi Bandaríkjaforseta sem búinn er að setja samninga Bandaríkjamanna, yfir Atlantshafið TTIPS annars vegar og TPP yfir Kyrrahafið, á ís. Hann segir einfaldlega, horfum til bandarískra hagsmuna, framleiðum í Bandaríkjunum og kaupum bandarískt. Vandinn er hins vegar sá fyrir Trump, að ýmsir koma til með að anda köldu ofan í hálsmál hans. Þannig lesum við í blöðum að Boeing-verksmiðjurnar hafi gert samninga við Kínverja um kaup á 6.810 þotum á næstu tuttugu árum fyrir himinháar upphæðir. Boeing mun varla taka því þegjandi ef afstaða Trumps stefnir slíkum hagsmunum í hættu. Því ef Trump lokar að Bandaríkjunum munu önnur ríki bregðast við og reyna að loka Bandaríkjamenn úti.

Helst hefði ég kosið að við drægjum okkur út úr þessum samningum og þá er ég að tala um TISA-þjónustusamningana, fyrst og fremst en þeir samningar eru framhald á samningum sem kenndir eru við GATS, General agreement on trade in services, almenna samninga um þjónustuviðskipti á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO. Nema hvað TISA er á vegum 50 ríkja af 123 sem upphaflega stóðu að GATS-samningunum. Þessi 50 ríki, þar af 28 aðildarríki Evrópusamnbandsins, sem kljúfa sig út úr GATS undir TISA-regnhlífinni, eru ríkustu lönd heimsins og fyrir þeim vakir að stilla hinum ríkjunum 73 upp gagnvart gerðum hlut.“

Aðkoma Trumps

Að sögn Ögmundar værum við Íslendingar ekki lausir þótt við segðum okkur frá TISA – sem við móralskt ættum þó að gera – því samningar sem Evrópusambandið kemur til með að gera munu hafa óbein áhrif á okkur í gegnum hið Evrópska efnahagssvæði, EES. „Þannig að það er vandlifað. Hins vegar hefur sú vakning sem orðið hefur í Evrópu um þessa samninga orðið til þess að samningamenn þeim megin Atlantsálanna eru nú nauðbeygðir til að sýna meiri gætni en þeir áður gerðu. Hvað aðkoma Trumps vestan megin kemur til með að þýða á eftir að koma í ljós.

Alvarlegast í þessum alþjóðasamningum eru náttúrulega yfirþjóðlegu gerðardómarnir sem færa úrskurðarvald í deilumálum út úr hinu hefðbundna dómskerfi og nær fjárfestunum. Reynslan af slíkum gerðardómum er skelfileg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert