Rasmussen og Guðni slógu á létta strengi

Eliza Reid forsetafrú og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands ásamt …
Eliza Reid forsetafrú og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands ásamt Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, og eiginkonu hans, Sólrunu Jákupsdóttur Løkke Rasmussen. mbl.is/Golli

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, tók á móti Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands í Kristjánsborgarhöll í dag, aðsetri danska þjóðþingsins.

Athöfnin fór fram á handbókasafni drottningar í Kristjánsborg. Þar bauð Rasmussen Guðna velkominn og sagði Dani stolta af því að fá að taka á móti forsetahjónunum í fyrstu opinberu heimsókn þeirra. Hann sagði þá ákvörðun táknræna fyrir sterkt samband þjóðanna. 

Báðir ávörpuðu þeir fjölmiðla stuttlega áður en þeir sátu hádegisverð saman. Rasmussen sló á létta strengi í sinni tölu og talaði um allan þann fjölda Íslendinga sem býr í Danmörku, allt frá hárskera hans til handboltalandsþjálfarans, Guðmundar Guðmundssonar.

„Það búa mjög margir Íslendingar í Danmörku sem eru hér í námi og vinnu í öllum geirum, allt frá þjálfara handboltaliðsins til míns eigin hárskera,“ sagði Rasmussen og uppskár hlátur Guðna og viðstaddra.

Að lokum óskaði hann Guðna og Íslendingum til hamingju með nýja ríkisstjórn og hann vænti þess að eiga gott samstarf við Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra. 

Guðni tók í svipaðan streng og ræddi sterkt tengsl þjóðanna í stuttri tölu sinni.

„Það er stór heiður fyrir mig og konu mína Elizu að vera hér í Danmörku,“ sagði Guðni á eftir Rasmussen á dönsku.

„Við Íslendingar finnum alltaf fyrir vináttuböndum þegar við komum til Danmerkur. Þar líður okkur eins og við séum heima,“ sagði Guðni sem þjóðirnar tvær varla geta gert samband þeirra betra, það væri svo gott. 

„En ef ykkur vantar hjálp með handbolta eða fótbolta, þá erum við klár,“ sagði Guðni kíminn.

Fyrr í dag tóku Margrét Þórhildur Danadrottning og Hinrik prins á móti Guðna og Elizu Reid forsetafrú við glæsilega móttökuathöfn í Amalíuborgarhöll.

Beint eftir athöfnina í morgun fór Guðni ásamt Elizuí Jónshús en forsetahjónin munu hafa í nógu að snúast í dag. Eftir fundinn með forsætisráðherra og forseta danska þingsins, Piu Kjærsgaard, munu forsetahjónin fara í Konunglega bókasafnið, Svarta demantinn, þar sem Guðni mun meðal annars afhenta veglega bókagjöf, 700 eintök af nýrri heildarútgáfu Íslendingasagna í danskri þýðingu. Um kvöldið liggur leið á ný í Amalíuborg þar sem drottningin býður forseta og fylgdarliði en Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er einnig með í för ásamt opinberri sendinefnd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert