„Ekki rjúkandi rúst“

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn

„Það er langt frá því að heilbrigðiskerfið sé rjúkandi rúst en margt þarf að laga,“ sagði Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra í svari sínu í óundirbúnum fyrirspurnatíma Alþingis í dag. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, tók fyrst til máls og innti Óttar svara, meðal annars við því hvernig fjármagn verði tryggt til að bæta heilbrigðiskerfið. Hún spurði jafnframt hvort uppbygging á heilbrigðiskerfinu verði gerð með þverpólitískum hætti og óskaði einnig eftir nákvæmari tímasetningu á fyrirhuguðum aðgerðum.

Fyrir 1. apríl munu nákvæmar tímasetningar liggja fyrir en unnið er að þessum málum innan ráðuneytisins, sagði Óttarr.  Hann tók vel í þann möguleika að vinna þverpólitískt að þessum málefnum því hann sagðist hafa „góða reynslu“ af slíkri vinnu. Hann áréttaði að ný stjórn hefði tekið við „olíuskipinu á miðju kjörtímabili“ og því væri margt eftir óunnið.

Birgitta benti á að það skorti framtíðarsýn í heilbrigðismálum og óskaði eftir henni. Af því sögðu spurði hún hvort ekki væri skynsamlegt að færa stefnumótunarvinnu meira inn í vinnu Alþingis svo þverpólitísk samstaða yrði tryggð og ekki hringlað með framtíðarstefnu í heilbrigðiskerfinu milli kjörtímabila.  

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn

Brot er brot 

Ari Trausti Jónson, þingmaður Vinstri grænna, beindi spjótum sínum að forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni, og spurði um inntak og eðli siðareglna þingmanna.

Ari sagði að ýmsar spurningar hefðu vaknað eftir umræðuna um Panamaskjölin. Hann spurði hver munurinn væri á broti á siðareglum, það er að segja hvort hægt væri að greina á milli brots á siðareglum þingmanna af ásetningi eða því þegar menn bera fyrir sig gleymsku. En erfitt væri að færa sönnur á „gleymskuna“.

Hann spurði jafnframt hvort „brot væri ekki alltaf brot“ og þyrfti að meðhöndla sem slíkt.  

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra benti á að sameiginlegur skilningur þingmanna þyrfti að vera um siðareglur þingmanna og hvernig bæri að fylgja þeim eftir. Hann sagði jafnframt að ekki væri hægt að leita til dómstóla vegna brota á viðurlögum siðareglna. 

Samvinna?

Næst tók til máls Logi Már Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Honum var tíðrætt um ræðu Theodóru S. Þorsteinsdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar, frá því í gær. Hún lagði áherslu á samvinnu. Logi spurði Óttar Proppé heilbrigðisráðherra hvernig Björt framtíð muni bregðast við frumvarpi stjórnarandstöðunnar.

Óttarr svaraði því til að þingmenn flokksins myndu kjósa eftir sinni sannfæringu og fylgja þeim áherslum sem flokkurinn legði áherslu á.  

Logi sagði svörin „þunn“ og jaðra við útúrsnúning. Óttarr benti á að þingmenn flokksins væru fjórir talsins og hefðu ekki þann meirihluta og því þyrfti flokkurinn alltaf að vinna með öðrum flokkum til að koma málum áfram. 

Þversögn í loftslagsmálum 

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks, og Rósa Björk Brynj­ólfs­dótt­ir, þingmaður Vinstri grænna, óskuðu bæði eftir ítarlegri svörum um umhverfis- og loftslagsmál. 

Gunnar Bragi benti á að þversögn fælist í stjórnarsáttmálanum. Hann spurði hvernig það gengi upp að tala um lágkolvetnishagkerfi um leið og til stæði að flytja inn landbúnaðarafurðir með skipum til landsins þegar við gætum framleitt þær sjálf. 

Hann óskaði einnig eftir frekari útlistun á því hvaða fyrirtæki hér á landi heyrðu undir mengandi stóriðju. Og hvort haldið yrði áfram með frekari stóriðjuuppbyggingu. 

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra sagði að nú væru ekki lengur ívilnandi skattasamningar við ríkið í boði. Fyrri áform um uppbyggingu á Bakka yrðu ekki tekin af dagskrá því fyrri ríkisstjórn hefði samþykkt hana. Hún sagði að sér þætti það „sorglegt“ en hún virti stjórnskipulagið. 

Rósa óskaði eftir nánari útlistun á framtíðarsýn í loftslagsmálum. Björt sagði brýnt að taka fyrst punktstöðuna áður en frekari áform yrðu kynnt í þeim efnum. Hún vísaði til loftslagsskýrslu frá Háskóla Íslands sem unnið væri að og hún myndi skoða nánar þegar niðurstaða hennar lægi fyrir. Hún tók fram að það þyrfti að bregðast við loftslagsbreytingum af mannavöldum. 

Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert