Vilja kynna íbúum fyrst lóðaúthlutun

Reykjavíkurborg samþykkti viljayfirlýsingu við bílaumboðið Heklu um lóðaúthlutun í Suður-Mjódd …
Reykjavíkurborg samþykkti viljayfirlýsingu við bílaumboðið Heklu um lóðaúthlutun í Suður-Mjódd á fundi borgarráðs í dag.

Á fundi borgarráðs í dag var samþykkt viljayfirlýsing á milli Reykjavíkurborgar og Heklu um lóðarvilyrði til fyrirtækisins fyrir byggingu nýrra höfuðstöðva bílaumboðsins í Syðri-Mjódd sem yrði um 24 þúsund fermetrar að stærð. Yfirlýsingin var samþykkt með fjórum atkvæðum Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Frétt mbl.is: Áform um íbúðabyggð og at­vinnu­starf­semi á Heklureitn­um við Lauga­veg

Einnig var samþykkt viljayfirlýsing um uppbyggingu á lóðum Heklu við Laugaveg þar sem núverandi höfuðstöðvar þess eru.

Á síðasta borgarráðsfundi hafnaði meirihlutinn tillögu Sjálfstæðisflokksins um að málið yrði ekki tekið til afgreiðslu í borgarráði fyrr en íbúum og hagmunaaðilum á svæðinu, Íbúasamtökunum Betra Breiðholt og hverfisráði Breiðholts, yrði gefinn kostur á að skila umsögn um málið. 

Sjálfstæðisflokkurinn leggst gegn því að „ráðstafa án útboðs 24 þúsund fermetra lóð í Syðri-Mjódd til bílaumboðsins“ segir í bókun vegna málsins. Þar kemur einnig fram að þeim þykir eðlilegra að kynna íbúasamtökum og hverfisráði Breiðholts og gefa þeim kost á að skila umsögn um málið. „Eðlismunur er á því að gefa þessum aðilum kost á að veita slíka umsögn áður en en borgin samþykkir lóðarvilyrðið og að halda fund til að kynna vilyrðið eftir að það hefur verið samþykkt,“ segir jafnframt í bókuninni. 

Einnig er gagnýnt að í samstarfssáttmála núverandi borgarstjórnarmeirihluta er kveðið á um „gagnsæi og aukið íbúalýðræði“ og „ljóst er að þessi loforð borgarstjórnarmeirihlutans eru innantóm og merkingarlaus.“

Spyrðir saman uppbyggingu íþróttastarfs og lóðaúthlutun

Á sama fundi var einnig samþykktur samningur við Íþróttafélag Reykjavíkur (ÍR) vegna uppbyggingar á íþróttamannvirkjum félagsins í Syðri-Mjódd. Samningurinn var samþykktur af fulltrúum allra flokka í borgarráði. Hins vegar sendu sjálfstæðismenn frá sér bókun vegna hans. Þar gagnrýnir minnihlutinn vinnubrögð borgarstjóra „einkum hvernig hann spyrðir saman efndir á umræddum ÍR-samningi annars vegar og lóðarúthlutun til Heklu hins vegar.“

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja hins vegar sjálfsagt að Reykjavíkurborg standi við samning sinn við ÍR frá árinu 2008 óháð lóðarúthlutunum til fyrirtækja í hverfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert