Málið aftur komið á byrjunarreit

Alda Hrönn Jóhannsdóttir og Gunnar Scheving Thorsteinsson.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir og Gunnar Scheving Thorsteinsson. Júlíus Sigurjónsson/Kristinn Ingvarsson

Settum héraðssaksóknara í máli Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, aðallögfræðings lögreglunnar í Reykjavík, var í úrskurði setts ríkissaksóknara falið að endurtaka rannsókn málsins. Þarf hann að taka til skoðunar athugasemdir sem fram komu í kæru lögmanns lögreglumannsins sem kærði málið. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort Alda Hrönn fari í leyfi á ný eins og við síðustu rannsókn málsins.

Settur ríkissaksóknari felldi í lok síðustu viku úr gildi ákvörðun setts héraðssaksóknara frá í desember um að fella málið niður, sökum vanhæfis aðstoðarmanns setts héraðssaksóknara við rannsókn málsins.

Komið hafði fram að lögreglufulltrúinn sem aðstoðaði við málið hafði tjáð sig á Facebook um hæfi Öldu sex dögum eftir að úrskurður féll og sagði hann þar að sér hefði fljótlega orðið ljóst að áætluð brot Öldu væru með öllu tilhæfilaus og að lögreglan væri vel sett með konu eins og Öldu í forystu.

Málið tekið upp að nýju

Þetta þýðir í stuttu máli að Lúðvík Bergsveinsson, settur héraðssaksóknari, mun taka málið upp að nýju og öll gögn sem lögreglufulltrúinn kom að við rannsókn málsins munu ekki nýtast við rannsóknina. Fram kemur í úrskurðinum að lögreglufulltrúinn hafi meðal annars komið að því að taka lögregluskýrslur og upplýsingaskýrslur af lögreglumönnum. Önnur gögn málsins eru áfram nýtileg.

Vegna þessa þarf að rannsaka málið að stórum hluta á ný.

Engin ákvörðun tekin um Öldu Hrönn

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að embættinu hafi ekki enn borist úrskurðurinn. Kallað verði eftir honum og í framhaldinu tekin ákvörðun um hvort Alda Hrönn fari í leyfi meðan málið er rannsakað að nýju. Á síðasta ári þegar málið var fyrst rannsakað steig hún til hliðar í nokkrar vikur. 

Út á hvað gengur málið?

Upphaf þessa máls má rekja til þess að lögreglumaðurinn Gunnar Scheving Thorsteinsson og tveir aðrir voru handteknir í LÖKE-málinu svokallaða. Var Gunnar sakaður um uppflettingar í innra kerfi lögreglunnar á árunum 2007 til 2013 og deilt nöfnum kvenna úr kerfinu, en fallið var frá þeirri ákæru. Samhliða því var fallið frá málinu á hendur tvímenningunum. Gunnar var aftur á móti fundinn sekur í Hæstarétt fyrir að hafa greint vini sín­um frá því á Face­book að hann hafi verið skallaður af ung­um dreng við skyldu­störf. Þó tók dómurinn fram að brotið væri ekki stórfellt.

Gunnar og annar þeirra sem hafði verið handtekinn kærðu svo Öldu fyrir rangar sakagiftir og brot í starfi. Var hún meðal annars sökuð um brot á friðhelgi einkalífs og ærumeiðandi aðdróttanir. Bæði héraðssaksóknari og ríkissaksóknari sögðu sig frá málinu vegna vanhæfis og var Lúðvík settur héraðssaksóknari og Bogi Nilsson settur ríkissaksóknari. 

Sem fyrr segir var niðurstaða rannsóknar Lúðvíks, þar sem hann hafði fyrrnefndan lögreglufulltrúa sér til aðstoðar, að falla frá málinu, en Bogi felldi þá niðurstöðu úr gildi með úrskurði sínum. Málið er því á ákveðnum byrjunarreit á ný, þó reikna megi með því að settur héraðssaksóknari þurfi ekki að afla allra gagna á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert