Hafna bótaskyldu vegna vélsleðaferðar

Björgunarsveitir við leit. Mynd úr safni.
Björgunarsveitir við leit. Mynd úr safni.

Áströlsku hjónin sem grófu sig í snjó á Langjökli eftir að þau urðu viðskila við vélsleðahóp á vegum Mountaineers of Iceland í byrjun janúar hafa leitað aðstoðar lögmanns til að kanna skaðabótaskyldu fyrirtækisins.

Vísir sagði fyrst frá þessu en í samtali við mbl.is sagði Árni Helgason, lögmaður hjónanna, að forsvarsmenn Mountaineers of Iceland höfnuðu alfarið bótaskyldu.

Frétt mbl.is: „Eru þeir bún­ir að gleyma okk­ur?“

Hjónin David og Gail Wilson urðu viðskila við vélsleðahóp í skipulagðri ferð á Langjökli 5. janúar. Í samtali við fréttastofu RÚV sagðist David afar óánægður með fyrirtækið.

„Það ætti að loka fyr­ir­tæk­inu. Það send­ir okk­ur af stað þegar það er stormviðvör­un. Við töluðum við ann­an leiðsögu­mann. Hann fór af stað með hóp en sneri til baka eft­ir 15 mín­út­ur af því að þetta var ekki ör­uggt,“ seg­ir Dav­id. „Í öðru lagi kenndu þeir okk­ur ekki að gang­setja sleðann. Það er al­veg fá­rán­legt.“

Sendi almenna fyrirspurn

 „Þau leituðu til mín hjónin og ég tók að mér þeirra mál. Ég sendi almenna fyrirspurn á fyrirtækið til að kalla eftir gögnum og spyrja út í þeirra afstöðu og fékk þá það svar að þeir höfnuðu alfarið bótaskyldu,“ segir Árni en fyrirtækið sendi honum ýmis gögn um málið.

Fyrirspurn Árna sneri bæði að bótum vegna beins tjóns hjónanna og miskabótum vegna þeirrar erfiðu lífsreynslu sem atvikið var. „Þau auðvitað voru þarna í lífshættu.“

Málið er nú í vinnslu en endanleg ákvörðun um framhaldið liggur að sögn Árna fyrir á næstu vikum.

„Við reiknum fastlega með því að mál verði höfðað og þá verði þetta bara eitthvað sem verður tekist á um fyrir dómstólum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert