„Ekki veitir af í þessu veðri“

Laugardalslaug.
Laugardalslaug. mbl.is/Eva Björk

„Eru þeir ekki að bjóða upp á bjórböð fyrir norðan, hjá Kalda? Við megum ekki bjóða upp á bjór hérna, þannig að við urðum bara að gera eitthvað annað.“ Þetta segir Bjarni Kjartansson, rekstrarstjóri Laugardalslaugar og hlær dátt, spurður um skilti þar sem gestum laugarinnar er sagt að þvo sér með súpu.

„Að öllu gamni slepptu þá var þetta prentvillupúki. Hann býr á öllum stöðum þar sem farið er með prent. Þið þekkið hann vel. Ég les mbl.is daglega og kippi mér ekki upp við nokkrar villur,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

„Og þetta er allt komið í ferli eins og hið opinbera segir það. Þetta er tekið niður og annað prentað, auk þess sem beðist er velvirðingar á mistökunum.“

Gestum var sagt að þvo sér með súpu.
Gestum var sagt að þvo sér með súpu. Ljósmynd/Af Facebook

Sólskinsbros

Bjarni lítur á björtu hliðarnar.

„Svo erum við líka mjög ánægð með það, að okkar helsta og besta sem við eigum, gestirnir okkar, taka vel eftir og vita hvað við gerum rétt og hvað við gerum rangt. Þetta þykir okkur afskaplega vænt um, að eftirtektin sé í góðu lagi. Það bæði eykur öryggi annarra gesta og heldur okkur við efnið.“

Skiltið hefur vakið mikla lukku á samfélagsmiðlum, eftir að mynd af því var deilt á Facebook-hópinn Bakland ferðaþjónustunnar fyrr í dag.

„Og þú veist hvað kemur á eftir hlátri? Sólskinsbros. Og ekki veitir af í þessu veðri,“ segir Bjarni að lokum í gegnum hláturinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert